Breytingartillaga stjórnarandstöðunnar við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, að útvarpsgjaldið renni að óbreytt og að fullu til reksturs RÚV, var felld á Alþingi nú fyrir skemmstu, með 34 atkvæðum gegn 24.
Fyrr í dag var breytingartillögu stjórnarandstöðunnar, um að fallið yrði frá fyrirhugaðri lækkun á útvarpsgjaldinu, sömuleiðis felld á þingi með yfirgnæfandi meirihluta.
Eins og fram hefur komið gerir fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar ráð fyrir að útvarpsgjaldið lækki úr 19.400 krónum í 17.800 krónur þann 1. janúar næstkomandi, og svo enn frekar í janúar árið 2016, þegar það verður 16.400. Lækkunin um áramótin hefur ekki áhrif á framlög ríkissjóðs til RÚV, sem fær 3,5 milljarða króna samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það er 119 milljónum króna meira en á yfirstandandi ári, en hækkunin er tilkomin vegna verðlags- og launabreytinga. Með breytingunni um áramótin lækka hins vegar tekjur ríkisins vegna útvarpsgjaldsins um 300 milljónir króna á milli ára.
„Fortíðarþrá hefndar og þöggunar“
Atkvæðagreiðslan fór fram með nafnakalli, og nokkrir þingmenn gerðu grein fyrir atkvæði sínu. Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði í ræðustól Alþingis að með ákvörðun sinni væri ríkisstjórnin að færa dagskrárgerð á RÚV yfir í það form sem tíðkist á sjónvarpsstöðinni ÍNN.
Svandís Svavarsdóttir, þingkona Vinstri grænna, sakaði ríkisstjórnina um að skella skollaeyrum gagnvart afstöðu stjórnar RÚV, sem stjórnvöld skipuðu, sem hefur sagt að ráðast þurfi í umfangsmiklar niðurskurðaraðgerðir verði útvarpsgjaldið lækkað.
Valgerður Bjarnadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, sakaði ríkisstjórnina um tvískinnung með því að lofa óskertu útvarpsgjaldi til RÚV á sama tíma og það er lækkað.
Þá sakaði Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, ríkisstjórnina um aðför að RÚV, og tengdi hana við þingmenn stjórnarflokkanna sem lýst hafa yfir óánægju sinni með fréttaflutning félagsins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, minnti þingheim á að verið væri að hækka framlög til ríkisins til RÚV um 485 milljónir króna á milli ára. Hækkunina má að hluta til rekja til 182 milljóna króna aukaframlags til RÚV, sem búist er við að verði samþykkt í atkvæðagreiðslu á þingi síðar í dag. Aukaframlagið er þó háð skilyrðum, meðal annars um að vaxtagreiðslur félagsins verði lækkaðar.
Þá sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, að aðgerðir ríkisstjórnarinnar væru í takt við vilja Davíðs Oddssonar, þar sem fortríðarpólitík hefndar og þöggunar ráði för.
Ákall útvarpsstjóra til þings virðist lítið hafa gert
Magnús Geir Þórðarson útvapsstjóri sendi út ákall til Alþingis í dag, með færslu sem hann birti á Facebook síðunni sinni. Þar sagðist hann vona að þingið myndi hlusta á þjóð sína og falla frá fyrirhugaðri lækkun á útvarpsgjaldinu.
Nokkrir þingmenn voru fjarverandi atkvæðagreiðsluna í dag, þeirra á meðal voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokks, fyrrverandi fréttastjóri á RÚV.
Í áskorun stjórnar RÚV til Alþingis, sem send var þingmönnum og fjölmiðlum 1. desember síðastliðinn, er lækkun útvarpsgjaldsins harðlega mótmælt. Þá var þar fullyrt að nái lækkunin fram að ganga blasi stórfelld breyting á hlutverki, þjónustu og starfsemi Ríkisútvarpsins með stórtækari niðurskurðaraðgerðum en áður hafi sést hjá félaginu. Þá hefur stjórn og stjórnendur RÚV áður fullyrt að óbreytt og óskert útvarpsgjald myndi standa undir rekstri félagsins. Eins og fram hefur komið er fjárhagsstaða RÚV afar bágborin, félagið er yfirskuldsett, að mestu vegna gamalla lífeyrissjóðsskuldbindinga. Vonir standa til að fyrirhuguð eignasala hjá félaginu muni rétta reksturinn af, en þar kemur einna helst til álita að selja Útvarpshúsið við Efstaleiti, og lóðina við húsið ýmist saman eða í sitt hvoru lagi.