Stjórnendum RÚV hefur borist eitt formlegt undirritað kauptilboð í húsnæði og lóð félagsins við Efstaleiti. Þetta staðfestir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri í samtali við Kjarnann. Samkvæmt heimildum Kjarnans er kauptilboðið metið álitlegt innan stjórnar RÚV. Auk þessa hefur félaginu borist óskir um formlegar söluviðræður frá öðrum aðilum ýmist vegna hússins eða lóðarinnar, þar sem mögulegt kaupverð var viðrað.
Útvarpsstjóri vill hvorki upplýsa um fjárhæð formlega kauptilboðsins né frá hverjum það hafi borist, og segir að ekki verði gengið til söluviðræðna fyrr en ákvörðun um sölu eigna félagsins liggur fyrir hjá stjórn RÚV. Engin formleg ákvörðun hefur verið tekin í þeim efnum innan RÚV, en stjórn félagsins fól sérstakri húsnæðisnefnd síðastliðið vor að hefja undirbúning á sölu eigna. Til greina kemur að samhliða sölu á fasteigninni semji RÚV um leigu á húsinu að hluta undir starfsemi félagsins. Fjöldi áhugasamra kaupenda hefur sett sig í samband við RÚV eftir að tilkynnt var um mögulega sölu eigna félagsins, meðal annars helstu fasteignaþróunarfélög landsins.
Meta verðmæti lóðarinnar á einn til tvo milljarða króna
Eins og kunnugt er samþykkti borgarráð Reykjavíkurborgar um miðjan októbermánuð síðastliðinn að endurskipuleggja lóð RÚV við Efstaleiti undir íbúabyggð. Borgin hyggst efna til skipulagssamkeppni um lóðin í samvinnu við RÚV. Samkvæmt heimildum Kjarnans verðmetur RÚV lóðina á einn til tvo milljarða króna.
Verðmæti útvarpshússins er metið á rúma þrjá milljarða króna í bókum RÚV, en verðmæti hússins er þar nokkuð vanáætlað samkvæmt heimildum Kjarnans. Útvarpsstjóri vill ekki gefa upp hvaða verðhugmyndir RÚV hafi varðandi mögulega sölu hússins, en segir að ef ráðist verði í sölu eigna, verði söluferlið gagnsætt og opið.
Vaxtaberandi skuldir RÚV nema 5,5 milljörðum króna, en slæma skuldastöðu félagsins má að miklu leyti rekja til lífeyrissjóðsskuldbindinga úr fyrndinni. Útvarpsstjóri hefur sagt að sala eigna, það er Útvarpshúsið og lóð félagsins við Efstaleiti, og óskert útvarpsgjald úr ríkissjóði myndi rétta af rekstur RÚV. Þá þurfi ekki að hækka útvarpsgjaldið né hækka fjárframlög ríkisins til félagsins.
Skiptar skoðanir eru á Alþingi varðandi mögulega sölu Útvarpsshússins. Á meðan sumir þingmenn hafa fagnað viðleitni RÚV til að bregðast við skuldavandanum, hafa aðrir þingmenn talað fyrir því að ríkið yfirtaki lífeyrisskuldbindingar félagsins og létti þar með á skuldastöðu RÚV.