Lög verða sett á yfirstandandi verkföll Bandalags háskólamanna (BHM) og Félags hjúkrunarfræðinga en frumvarp þess efnis er væntanlegt fyrir Alþingi á morgun. Þetta herma heimildir fréttastofu RÚV, sem greindi í kvöld frá yfirvofandi útspili ríkisstjórnarinnar í kjaradeilunum.
Algjör pattstaða er í kjaraviðræðunum. Ríkissáttasemjari átti þrettán klukkustunda langan árangurslausan fund með samninganefndum ríkisins og BHM í gær, og telur að ekki sé ástæða til að boða til nýs fundar.
Ríkissáttasemjari hefur samtals haldið 24 samningafundi með BHM og ríkinu og fundirnir með Félagi hjúkrunarfræðinga og ríkinu eru orðnir tíu talsins.
Í frétt RÚV í kvöld var fullyrt að lög verði sett á verkföll félaganna, að því er heimildir fréttastofunnar hermdu, sem standi nærri ríkisstjórninn. Líklegt þykir að frumvarp þess efnid verði lagt fram á Alþingi á morgun.
Í harðyrtu minnisblaði sem Landlæknir sendi ríkisstjórninni á dögunum skoraði hann á stjórnvöld að binda enda á verkföll heilbrigðisstarfsmanna með öllum tiltækum ráðum. Verkföll þeirra væru að vinna heilbrigðiskerfinu óbætandi skaða.