Stjórn RÚV hefur formlega óskað eftir því að félagið fái útvarpsgjaldið svokallaða óskert eins og kveðið er á um í útvarpslögum. Þetta kemur fram í grein eftir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóra sem birtist í dag. Hann kynnir framtíðarsýn sína fyrir RÚV á fundi með starfsmönnum í dag.
Í greininni segir: "Á undanförnum árum hefur ríkið árlega tekið til sín hluta af útvarpsgjaldinu og nýtt í óskyld verkefni þrátt fyrir óbreyttar lagakvaðir um víðtæka þjónustu og skuldbindingar RÚV. [...]Stjórn RÚV hefur óskað eftir því að félagið fái útvarpsgjaldið óskert eins og kveðið er á um í útvarpslögum. Þannig mætti tryggja áframhaldandi öflugt Ríkisútvarp, með sambærilegar skyldur og hlutverk og verið hefur. Óbreytt útvarpsgjald dugir til að standa undir enn öflugri dagskrá og til að bæta dreifikerfið svo það nái til alls landsins. Ekki er þörf á að hækka útvarpsgjaldið frá því sem nú er eða veita sérstök fjárframlög til RÚV."
RÚV staðráðið í að auka innlenda dagskrárgerð
Framtíðarsýn stjórnar og starfsfólks RÚV er að félagið verði áfram öflugur almannamiðill í þjónustu þjóðarinnar allrar, með aukinni áherslu á menningar- og samfélagshlutverk hans, að því er fram kemur í grein útvarpsstjóra.
"Við viljum sinna menningu þjóðarinnar enn betur en gert hefur verið, í útvarpi, sjónvarpi og á vef. Við erum staðráðin í að efla innlenda dagskrárgerð. Sér í lagi þarf að bæta framboð á íslensku leiknu efni og gæðaefni fyrir börn á íslensku enda verður á næstu árum gerð enn ríkari krafa um að Ríkisútvarpið bjóði nýjum kynslóðum Íslendinga upp á vandað íslenskt efni þegar erlent afþreyingarefni á erlendum tungumálum er á hverju strái."
Þá hyggst RÚV ráðast í úrbætur á dreifikerfi félagsins, sem hafi verið mikilvægur hlekkur í almannavörnum þjóðarinnar.
"Forsjálir hugsjónamenn stóðu að stofnun Ríkisútvarpsins fyrir meira en áttatíu árum. Þá var byggt upp viðamikið dreifikerfi sem síðan hefur gegnt lykilhlutverki í miðlun dagskrárefnis auk þess sem það hefur verið mikilvægur hlekkur í almannavörnum þjóðarinnar. Á næstu árum þarf að gera úrbætur á dreifikerfinu til að það geti þjónað nýjum kynslóðum. Jafnhliða tæknilegri uppbyggingu þarf að huga að faglegum vinnubrögðum og starfsháttum RÚV og opna samtalið við þjóðina um Ríkisútvarp okkar allra," skrifar útvarpsstjóri.