„Á rúmlega einu ári hefur kaupmáttur launa aukist umtalsvert og verðbólga hrapað niður í sögulegar lægðir. Þetta er ekki tilviljun því að þessu var stefnt við undirritun kjarasamninga í desember 2013 en árangurinn er framar vonum.“ Þetta segir í nýrri grein á vef Samtaka atvinnulífsins (SA) þar sem kaupmáttaraukningin síðustu mánaða eru til umfjöllunar.
Kaupmáttur launa jókst um 5,7% á síðasta ári sem er mesta hækkun á einu ári frá árinu 1998, að því er segir í umfjölluninni. „Ársverðbólga mældist aðeins 0,8% í lok síðasta árs. Með hóflegum launahækkunum og hagstæðum ytri skilyrðum hafa fyrirtæki almennt getað haldið verðlagi stöðugu og því hefur fólk haft úr meiru að spila,“ segir í umfjöllun á vef SA.
Ávinningur heimilanna af þróun undanfarinna mánaða er mikill, að mati SA. Kaupmáttur einstaklings með meðaltekjur jókst um 225 þúsund krónur eftir skatt á árinu 2013 eða um 19 þúsund krónur á mánuði. Kaupmáttur hjóna með meðaltekjur jókst um 450 þúsund krónur sem samsvarar rúmlega þriggja mánaða matarútgjöldum meðalheimilis, segir í umfjöllun SA.
Kjarasamningsviðræður milli verkalýðshreyfingar og Samtaka atvinnulífsins hafa gengið erfiðlega, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Innan verkalýðshreyfingarinnar hafa verið uppi kröfur um 20 til 30 prósent launahækkun, á meðan SA hefur horft til þess að hækka launin um 3,5 til fimm prósent. Frá síðustu mánaðarmótum hafa 45 kjarasamningar verið lausir, en viðræður standa yfir eins og áður sagði.