Ef hagnaðartölur stóru bankanna þriggja, Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankans, eru skoðaðar án virðisbreytinga útlána sést að arðsemi eiginfjár var um níu prósent og svipar mjög til þeirrar arðsemi sem hundrað stærstu fyrirtæki landsins skiluðu á árinu 2013. Þetta segir efnahagsdeild Samtaka atvinnulífsins, sem fjallar í dag um uppgjör bankanna og háan vaxtamun. Spurt er hvort hagnaður bankanna sé óeðlilega hár og hvernig hægt sé að minnka vaxtamun á Íslandi, þ.e. mun á vaxtatekjum og gjöldum bankanna.
Samanlagður hagnaður bankanna á síðasta ári nam um 80 milljörðum króna og tæplega 600 milljarðar voru samtals bundnir í eigið fé. „Arðsemi þess fjármagns var því um 14% og telst það nokkuð gott þar sem almenn krafa á markaði liggur á bilinu 10-13%. Út frá þessum mælikvarða má því færa rök fyrir að arðsemi bankanna hafi verið 1-4 prósentum umfram eðlilega kröfu fjárfesta og skapar það grundvöll fyrir umræðu um hvort hagnaður bankanna hafi verið eðlilegur,“ segir í greininni.
Stór hluti hagnaðarins sé þó tilkomin vegna endurmats á útlánasafni bankanna og því sé ekki um aðræða rekstrartekjur innheimtar beint af almenningi og fyrirtækjum. „Slíkur hagnaður er því ekki góður mælikvarði á undirliggjandi rekstur bankanna og verður til vegna þess að bankarnir reikna með betri heimtum af útistandandi lánum í framtíðinni sem m.a. helst í hendur við betri horfur í íslensku efnahagslífi.“ Hagnaður án virðisbreytinga samsvarar um níu prósent arðsemi, sem er einu til fjórum prósentum undir kröfu á markaði.
Vaxtamunur hár í alþjóðlegum samanburði
„Þrátt fyrir að arðsemi eigin fjár viðskiptabankanna þriggja sé ekki úr takti við ávöxtun annarra innlendra fyrirtækja er innheimtur vaxtamunur bankanna, þ.e. munur og vaxtatekjum og gjöldum, mikill í alþjóðlegum samanburði og á það við jafnvel þó leiðrétt sé fyrir stærð þeirra. Þessi vaxtamunur greiðist af almenningi og fyrirtækjum og því ekki undarlegt að hann sé gagnrýndur.“
Spurt er hvers vegna rekstrarhagnaður bankanna sé ekki meiri fyrst tekjur af vaxtamun eru svo miklar. Skýringin er sögð felast í kostnaði því íslensku bankarnir eru dýrir í rekstri miðað við banka í öðrum löndum. „Hluta þess kostnaðar geta bankarnir minnkað með aukinni hagræðingu en stór hluti kostnaðar þeirra er tilkominn vegna ytri þátta sem bankarnir hafa litla stjórn á. Smæð landsins, há krafa um eiginfjárbindingu, íþyngjandi skattbyrði og sívaxandi regluverk liggur allt utan áhrifasviðs bankanna en er til þess fallið að auka rekstrarkostnað þeirra og þ.a.l. tekjuþörf um leið.“ SA segir að það sé almenningur sem á endanum borgar háar álögur ríkisins á banka.
Bankarnir geta minnkað
Í greininni segir að bankarnir geti minnkað efnahagsreikninga sína um sex prósent. „Hagnað bankakerfisins ber að skoða í samhengi við eigið fé en hagnaður bankanna án óreglulegra liða er í takt við almenna kröfu á markaði. Íslensku bankarnir eru hvorki stórir í alþjóðlegum né sögulegum samanburði en án þess að taka afstöðu til þess hvort þeir eigi að minnka vitum við hversu mikið þeir geta minnkað. Stærstu viðskiptabankarnir þrír geta minnkað efnahagsreikning sinn um 6% en sé vilji til að minnka þá enn frekar þarf að breyta því regluverki sem þeir starfa eftir. Á meðan að bankar starfa í skjóli loforðs um lausfjárstuðning Seðlabanka og teljast kerfislega mikilvægir er óvíst að vilji standi til þess.
Vaxtamunurinn er mikill og væri eftirsóknarvert að minnka hann. Kostnað í bankakerfinu þarf að minnka með frekari hagræðingu. Í allri umræðu um mikinn vaxtamun bankanna er þó mikilvægt að hafa í huga að íþyngjandi regluverk og sértækar álögur sem lagðar hafa verið á þá skila sér í auknum kostnaði sem viðskiptavinirnir, heimili og fyrirtæki, bera í formi lakari vaxtakjara. Sértæku skattarnir sem viðskiptabankarnir þrír greiddu á árinu 2014 eru ígildi um 15% af vaxtamuni bankanna. Leið til að minnka vaxtamun og þar með draga úr kostnaði til heimila og fyrirtækja er því að draga úr sértækum sköttum og álögum sem lagðar eru á bankakerið.“
Umfjöllun efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.