Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins (SA) hefur brugðist við athugasemdum Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands, og segja sérfræðingar sviðsins að forsendur þeirra við útreikninga hafi verið rangar. „Við gengum út frá því að SÍ væri [að] spá um þróun nafnlaunavísitölu Hagstofunnar. Það var rangt. Við lifum og lærum,“ segir í tísti frá efnahagssviði SA.
Við gengum út frá því að SÍ væri spá um þróun nafnlaunavísitölu Hagstofunnar. Það var rangt. Við lifum og lærum. http://t.co/5XrHQz0Bzw
— Efnahagssvið SA (@EfnahagssvidSA) August 21, 2015
Áður hafði efnahagssviðið sent frá sér graf sem sýndi hversu mikið laun þyrftu að hækka það sem eftir lifir árs til að ný spá Seðlabanka Íslands standist, en í nýjustu Peningamálum, ársfjórðungslegu riti Seðlabankans, er því spáð að laun hækki í ár um um 10,4 prósent.
Í samtali við Kjarnann sagði Þórarinn þessa útreikninga SA byggða á misskilningi. Spá Seðlabankans um hækkun launa snúi að engu leyti að launavísitölu Hagstofunnar heldur launakostnað miðað við þjóðhagsreikninga. Í spá bankans sé tekið tillit til kjarasamninga sem undirritaðir voru í vor en í þeim hefur meðal annars verið samið um laun sem gilda afturvirkt. Launavísitala Hagstofunnar komi því málinu ekkert við.