Sádí Arabía ætlar að leggja um eina milljón dala, 135 milljónir króna, í byggingu væntanlegrar mosku í Reykjavík. Þetta kemur fram í frétt á vef embættis forseta Íslands en Ólafur Ragnar Grímsson átti fund með nýjum sendiherra Sádí Arabíu hérlendis í dag.
Nýi sendiherrann, Ibrahim S.I. Alibrahim, afhenti forseta Íslands trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum í dag og flutti forsetanum samhliða sérstaka kveðju nýs konungs Sádí Arabíu, Salman bin Abdulaziz Al Saud.
Í frétt á vef embættis forseta Íslands segir ennfremur: "Rætt var um áhuga íslenskra aðila á að kanna jarðhita í Sádi Arabíu, einkum með tilliti til kælingar húsa. Fjallað var um þróun mála í Mið-Austurlöndum og vaxandi átök á svæðinu. Þá greindi sendiherrann frá því að Sádi Arabía styddi byggingu væntanlegrar mosku í Reykjavík, myndi leggja fram rúmlega eina milljón Bandaríkjadala til byggingar hennar og að hann hefði í gær skoðað lóðina þar sem moskan myndi rísa."
Sprengdu upp sveitarstjórnarkosningarnar
Umræðan um byggingu mosku í Reykjavík hefur verið afar eldfim hérlendis. Átta dögum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2014 var haft eftir Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík, að „á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna“. Í viðtali við Vísi sagðist hún hafa „búið í um eitt ár í Sádí Arabíu og byggi þessa skoðun mína ekki á fordómum, heldur reynslu.“
Í kjölfarið var lýst yfir stuðningi við Framsóknarflokkinn á Facebook síðu sem bar nafnið „Mótmælum mosku á Íslandi“. Fylgi flokksins jókst mikið þessa síðustu daga fyrir kosningarnar og flokkurinn fór úr því að mælast með án borgarfulltrúa í að ná tveimur slíkum inn í borgarstjórn.
Umræðan fór síðan aftur á flug snemma á þessu ári þegar í ljós kom að Framsókn og flugvallarvinir hefðu skipað Gústaf Níelsson, sagnfræðing og yfirlýstan andstæðing byggingar mosku í Reykjavík, sem varamann í mannréttindaráð borgarinnar. Skipan hans var dregin til baka nokkrum klukkustundum síðar.