Tíðindi úr bílaiðnaði að undanförnu benda til þess að miklar breytingar séu handan við hornið. Sumir ganga svo langt að tala um mestu breytingar í meira hálfa öld. Þær snúast meðal annars um þróun á sjálfakandi bílum og einnig miklum framförum sem hafa orðið að undanförnu þegar kemur að þróun bíla sem ganga fyrir rafmagni.
Nýjustu tíðindin, frá því í gær, sýna líka að stóru bílaframleiðendurnir eru að undirbúa sig fyrir miklar breytingar. BMW, Audi og Mercedes, þýsku bílarisarnir, eru sameiginlega að festa kaup á Here kortahugbúnaði Nokia fyrir rúmlega 400 milljarða króna. Þykir þetta renna stoðum undir að þróun sjálfakandi bíla sé langt komin, jafnvel lengra en ýmsir greiningaraðilar á markaði hafa gert sér grein fyrir.
Það hefur áður verið minnst á það á þessum vettvangi, að Íslandi ætti að geta stigið stærri skref en margar aðrar þjóðir þegar kemur að rafvæðingu bílaflotans. Fréttir úr alþjóðlegum heimi bílaiðnaðarins benda til þess að nauðsynlegt sé að fylgjast vel með hverju skrefi og jafnvel hraða uppbyggingu innviða fyrir rafbílavæðingu hér á landi. Það sakar aldrei að vera vel undirbúin þegar hraðar tæknibyltingar ryðjast fram á sjónarsviðið.