Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og viðskiptafræðingur, skrifar harðorða grein í Morgunblaðið í dag og sakar stjórnendur Íbúðalánasjóðs um markaðsmisnotkun með því að hafa haldið uppi falskri eftirspurn eftir lánsfé fyrir hrun. Hann telur að Fjármálaeftirlitið hefði átt að kæra stjórnendur sjóðsins árið 2005, þegar sjóðurinn sótti sér meira fjármagn til að lána út. Brotaþolar eru almenningur í landinu, segir Vilhjálmur.
Í greininni vísar Vilhjálmur í frétt Kjarnans frá 3. ágúst síðastliðnum um breska bankamanninn Tom Hayes sem dæmdur var í 14 ára fangelis í Bretlandi fyrir að hafa áhrif á vaxtakjör á markaði með millibankavexti. Málið er afar umfangsmikið, varðar stærstu banka heims og hafa nokkrir þeirra greitt sviminháar sektir.
Vilhjálmur rifjar upp viðbrögð stjórnenda Íbúðalánasjóðs við spurningum Fjármálaeftirlitsins árið 2005, þegar sjóðurinn sótti sér meira fjármagn þrátt fyrir góða stöðu.
„Þegar bankar á Íslandi töldu sig þess megnuga að veita húsnæðislán til langs tíma töldu stjórnendur Íbúðalánasjóðs tilveru sinni og starfsemi sjóðsins ógnað. Íbúðalánasjóður var með ofgnótt fjár í fórum sínum en taldi ástæðu til að sækja meira lánsfé á markað, til að vera með enn meiri ofgnótt fjár. Þegar stjórnendur Íbúðalánasjóðs eru spurðir af Fjármálaeftirliti, í maí 2005, hvers vegna sótt hafi verið eftir meira lánsfé í stöðu ofgnóttar er svarið eftirfarandi:
„Útgáfa fjármögnunarbréfa sjóðsins hefur um árabil verið ráðandi um langtímavaxtastig í landinu og ríkið stendur ábyrgt fyrir öllum skuldbindingum hans. Við slíkar aðstæður var algerlega fráleitt fyrir Íbúðalánasjóð að hætta útgáfu íbúðabréfa. Slíkt hefði leitt til hruns vaxtamyndunar á markaði og gert sjóðinn ósamkeppnishæfan um ný útlán. Lánshæfismat sjóðsins hefði hrunið í kjölfarið og hagsmunum ríkissjóðs verið teflt í voða. Þetta hefði verið skýrt brot á lagaskyldum stjórnar og framkvæmdastjóra og óhugsandi út frá því hlutverki sem sjóðnum er að lögum falið.““
Vilhjálmur segir þetta misskilning um skyldur Íbúðalánasjóðs. „Íbúðalaánasjóði er að lögum falið það eitt hlutverk að veita einstaklingum og félagasamtökum lán til íbúðakaupa eða nýbygginga. Það er ekki skýrt nánar hvernig „Lánshæfismat sjóðsins hefði hrunið“. Það sem stendur þó upp úr í svari stjórnenda sjóðsins er játning um að Íbúðalánasjóður og stjórnendur hans hafi í raun möndlað með vexti á ríkisskuldum, haldið uppi vöxtum þegar eftirspurn eftir lánsfé til starfsemi sjóðsins var ekki fyrir hendi. Ofgnótt lánsfjár sjóðsins var síðan notuð til að láta banka og sparisjóði lána til íbúðakaupa, í umboði Íbúðalánasjóðs, langt umfram fjárhæðamörk í útlánum sjóðsins. Með því var verið að gera Íbúðalánasjóð að heildsölubanka á íbúðalánamarkaði, án lagaheimildar. Þessi lán ollu hringekju uppgreiðslu sem enn juku á vanda Íbúðalánasjóðs.“
Átti að kæra
„Við móttöku þessa bréfs Íbúðalánasjóðs til Fjármálaeftirlitsins áttu stjórnendur FME að kæra stjórnendur ÍLS til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra fyrir markaðsmisnotkun í skuldabréfaviðskiptum, þ.e. að halda uppi falskri eftirspurn eftir lánsfé. Brotaþolar í þessu máli er allur almenningur í þessu landi sem þarf að greiða hærri vexti en ella af lánum sínum,“ segir í greininni.
„Íbúðalánasjóður hefur nú þegar tapað 60 milljörðum á brölti stjórnenda sjóðsins. Ekki er víst að sjái fyrir enda á taprekstri Íbúðalánasjóðs. Brot Íbúðalánasjóðs og stjórnenda hans er ekki síður alvarlegt en brot þess sem dæmdur var í 14 ára fangelsi fyrir þátt sinn í að hafa áhrif á vaxtakjör á markaði. Tekið skal fram að stjórnendur Íbúðalánasjóðs hafa ávallt gengið lausir.“