Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður og aðaleigandi Samskipa Holding B.V., hollensks eignarhaldsfélags Samskipa hf., hlaut fjögurra ára fangelsisdóm fyrir aðild sína að Al-Thani málinu svokallaða í Hæstarétti Íslands í síðustu viku. Pálmar Óli Magnússon forstjóri Samskipa segir í samtali við Kjarnann, að sakfelling Ólafs hafi engin áhrif á rekstur skipafyrirtækisins á Íslandi.
Þá er honum ekki kunnugt um hvort Ólafur hyggst víkja úr stjórn hollenska eignarhaldsfélagsins, en samkvæmt heimildum Kjarnans hefur dómurinn ekki heldur áhrif á hæfi hans til að eiga sæti í stjórn móðurfélags Samskipa í Hollandi.
Svokölluð B.V. félög, lúta ekki sérstöku eftirliti hjá hollenskum eftirlitsstofnunum, og samkvæmt upplýsingum Kjarnans hefur sakfelling Ólafs Ólafssonar í Hæstarétti ekki áhrif á hæfi hans til stjórnarsetu hjá Samskipum Holding B.V.
Hins vegar segir heimildarmaður Kjarnans, lögmaður hjá lögmannsstofunni CMS í Hollandi, að hollenska dómsmálaráðuneytið geti krafist afsagnar stjórnarmanna með hliðsjón af alvarleika brotsins sem þeir hafa verið sakfelldir fyrir. Hins vegar sé afar sjaldgæft að ráðuneytið hafi frumkvæði að slíku.