Heildarverðmæti seldra geisladiska, hljómplatna og stafrænna hljóðskráa á Íslandi árið 2014 nam 430 milljónum króna. Það er rétt ríflega þriðjungur af söluverðmæti ársins 1999, ef reiknað er á verðlagi síðasta árs, þegar söluvelta vegna hljóðritunar náði hámarki. Alls seldust 192 þúsund eintök af geisladiskum og hljómplötum á árinu 2014 eða 676 þúsund færri eintök en árið 1999 þegar salan nam 868 þúsund. Seldum eintökum á hvern íbúa landsins hefur því fækkað úr 3,1 í 0,6 á 16 árum. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofunni um hljóðritasölu sem birtar voru í morgun.
Sala á geisladiskum og hljómplötum hélt áfram að dragast saman í fyrra, líkt og hún hefur gert nánast linnulaust frá árinu 2007. Eina undantekningin var árið 2011 þegar 42 þúsund eintaka aukning var á milli ára. Líklegt verður að teljast að ótrúlegar vinsældir plötu Mugison, Haglél, skipti miklu í uppgjöri þess árs en hún seldist í um 30 þúsund eintökum. Árið eftir seldi Ásgeir Trausti frumburð sinn, Dýrð í dauðaþögn, í um 22 þúsund eintökum og hjálpaði þar með til við að draga úr fallinu í sölu tónlistar það árið. Síðustu tvö ár, 2013 og 2014, hefur seldum eintökum hins vegar fækkað um 50 þúsund á ári.
Þegar litið er lengra aftur í tímann er hin skarpi samdráttur í sölu á geisladiskum og hljómplötum enn meira sláandi. Frá árinu 1999, þegar seldust 868 þúsund eintök, hefur salan dregist saman um 78 prósent.
Vínýl í stórsókn en geisladiskar að hverfa
Þorri þeirra geisladiska og hljómplatna sem Íslendingar kaupa er innlend framleiðsla, eða átta af hverjum tíu. Hlutfall hennar hefur vaxið samhliða samdrætti í sölu almennt en innlenda framleiðslan var innan við helmingur sölu allan tíunda áratug síðustu aldar og vel fram yfir aldarmótin.
Vínýlhljómplatan, sem var spáð dauða í kjölfar tilkomu geisladisksins undir lok síðustu aldar, nýtur vaxandi vinsælda. Árið 2010 seldust um eitt þúsund slíkar hérlendis, árið eftir um tvö þúsund eintök og árið 2012 um fimm þúsund eintök. Á árinu 2013 jukust vinsældir hennar enn og þá seldust um átta þúsund eintök. Í fyrra varð svo enn eitt stökkið í sölu hljómplatna þegar um ellefu þúsund slíkar seldust á Íslandi. Sala á hljómplötum hefur því aukist um þrjú þúsund eintök á ári síðastliðin fjögur ár. Hljómplatan á þó auðvitað langt í land með að ná þeim vinsældum sem hún naut framan af síðustu öld.
Alls nam samdráttur í sölu hljóðrita (geisladiska, hljómplatna og stafrænna skráa) frá útgefendum og dreifendum á síðasta ári um átta prósentum. Söluandvirði hljóðrita hefur lækkað um 75 prósent frá árinu 1999, þegar það er reiknað á föstu verðlagi.
Þriðjungur sölunnar stafræn
Í frétt Hagstofunnar segir að hratt dvínandi sölu geisladiska og hljómplatna sé hægt að rekja til tveggja þátta öðrum fremur. "Dregið hefur úr sölu geisladiska frá því að þeir leystu hljómplötuna að mestu leyti af hólmi á tíunda áratugnum og útgáfa efnis stór jókst í kjölfarið með endurútgáfum á efni sem áður var tiltækt á hljómplötum. Hins vegar má skýra út fall í sölu geisladiska með tilkomu nýrra aðferða við deilingu tónlistar til notenda í formi stafrænna skráa (hvort heldur er sem niðurhal eða streymi). Á síðasta ári nam sala stafrænna skráa á vegum þeirra tveggja aðila sem upplagseftirlit hljómplötuútgefenda tók til rúmum 123 milljónum króna. Það samsvarar til hátt í þriðjungs hljóðritasölunnar í verðmæti talið. Hafa ber hugfast að upplýsingar um sölu stafrænna skráa ná ekki til niðurhals og streymis frá erlendum tónlistarveitum."