Salan á Datamarket til Qlik Technologies í Bandaríkjunum, sem fór fram í október síðastliðnum, hefur verið valin viðskipti ársins hjá Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins um viðskipti, með yfirburðum. Þetta kemur fram í blaðinu í dag.
Kaupverðið sem greitt var fyrir Datamarket getur orðið allt að 13,5 milljónir dala, um 1.660 milljónir króna. Hjálmar Gíslason, sem stofnaði Datamarket árið 2008 og er framkvæmdastjóri þess, átti 27 prósent í fyrirtækinu og fékk í sinn hlut allt að 450 milljónir króna. Hjálmar var einnig valinn viðskiptamaður ársins af dómnefnd Markaðarins.
Hjálmar leiddi hóp fjárfesta sem keyptu hlut í Kjarnanum í október síðastliðnum og er stjórnarformaður félagsins.
Í öðru sæti yfir viðskipta ársins var sala Hagamels, félags í eigu fjárfestanna Árna Haukssonar, Hallbjörns Karlssonar og Sigurbjörns Þorkelssonar, á 6,6 prósenta hlut í smásölurisanum Högum. Með sölunni innleystu þeir um 2,3 milljarða króna hreinan hagnað á fjárfestingu sinni í félaginu, en þeir höfðu lagt í hana tæpum þremur árum áður. Um var að ræða mesta hagnað sem einkafjárfestir hefur innleyst frá hruni vegna hlutabréfaviðskipta.
Hagar, sem Hagamelur seldu hlut sinn í með miklum hagnaði, á og rekur meðal annars Bónus-verslanirnar.
Í þriðja sæti voru samningar sem náðust í byrjun desember um að veita slitabúi gamla Landsbankans (LBI hf.) undanþágu frá fjármagnshöftum til að greiða forgangskröfum sínum í kjölfar samkomulags sem slitabúið gerði við nýja Landsbankann um breytta skilmála skuldabréfa þeirra á milli. Þetta samkomulag var talið flýta fyrir afnámi gjaldeyrishafta. Samkomulagið felur í sér breytingar á greiðsluferli skuldabréfa að jafnvirði 226 milljarða króna og lengingu þeirra frá október 2018 til október 2026.
Skrifað var undir nýtt samkomulag milli nýja og gamla Landsbankans í maí 2014. Seðlabankinn samþykkti í desember að veita slitabúi Landsbankans undanþágu frá fjármagnshöftum.
Fnykurinn af Borgun mesti afleikurinn
Verstu viðskipti ársins að mati dómnefndar Markaðarins voru sala Landsbankans á 31,2 prósent hlut í greiðslukortafyrirtækinu Borgun. Álitsgjöfum fannst fnýkur af þeirri aðferðarfræði sem beitt var við söluna, en hópurinn sem keypti var sá eini sem fékk að bjóða. Auk þess eru margir á þeirri skoðun að verðið sem greitt hafi verið fyrir hafi verið allt of lágt. Kjarninn greindi fyrstur frá því hvernig var staðið að sölunni á hlut Landsbankans í Borgun og hverjir það voru sem keyptu hlutinn.
Í öðru sæti yfir verstu viðskiptin voru sjónvarpsstöðvar Konunglega kvikmyndafélagsins, sem Sigmar Vilhjálmsson leiddi. Þær fóru í loftið í mars en öllu starfsfólki var sagt upp í lok apríl. 365 tók loks yfir stöðvarnar og lagði aðra þeirra, Miklagarð, niður.
Sigmar Vilhjálmsson fór fyrir Konunglega kvikmyndafélaginu í skammlífu ævintýri þess.
Í þriðja sæti var skuldaleiðrétting ríkisstjórnarflokkanna. Allmargir dómnefndarmenn sögðu hana hafa verið afleik þar sem miklar fjárhæðir hefðu að stórum hluta runnið til fólks sem þurfti ekki á þeim að halda. Milljörðunum 80 hefði verið betur varið í að lækka skuldir eða renna styrkari stoðum undir heilbrigðis- og menntakerfi landsins.
Leiðréttingin, skuldaniðurfelling ríkisstjórnarinnar á verðtryggðum húsnæðislánum, kostar ríkissjóð um 80 milljarða króna.