Ástæða þess að það slitnaði upp úr viðræðum helstu viðsemjenda á almennum og opinberum vinnumarkaði í síðustu viku, hinum svokölluðu SALEK-viðræðum, var sú að aðilar náðu ekki saman um lífeyrismál. Fulltrúar opinberu félaganna gátu ekki fallist á að taka kostnað vegna lífeyrisréttinda inn í viðræður um launasamninga. Frá þessu greinir Morgunblaðið í dag. Upp úr slitnaði viðræðunum í síðustu viku.
SALEK stendur fyrir samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. Að nefndinni standa fern heildarsamtök launafólks, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Kennarasambandið, og fyrir hönd vinnuveitenda Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðuneytið. Sérfræðingar þessara félaga og samtaka hafa undanfarin þrú ár unnið að því að innleiða bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga á Íslandi, að norrænni fyrirmynd.
Hugmyndir um „launaskriðstryggingu“
Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag segir að vonir standi til að viðræður hefjist á nýjan leik fyrr en síðar. Áður en upp úr slitnaði hafði hópurinn meðal annars útfært hugmyndir þess efnis að öllum hópum á vinnumarkaði yrðu tryggð sambærileg launaþróun, með þeim hætti að allir viðsemjendur séu skuldbundnir til þess að launakostnaðarhækkanir, að lífeyrisframlögum metöldum, yrðu sambærilegar hjá öllum hópum. Lagt var til að þessu yrði náð með svokallaðri „launaskriðstryggingu“. Launaþróun á almennum vinnumarkaði umfram opinbera launamarkaðainn yrði þá bætt þeim opinberu starfsmönnum sem ekki nutu launahækkana upp í lok árs með greiðslu launaskriðstryggingar.
Sú sviðsmynd sem dregin var upp af hagfræðingum þeirra samtaka sem eiga aðild að viðræðunum, og viðsemjendur voru sammála um, sýndi að launaþróun hjá hinu opinbera hefur þróast langt umfram launahækkanir á almenna markaðinum. Þær hækkanir sem BHM fékk með gerðardómi átti að nota sem viðmið í mögulegu samkomulagi og stefnt að því að launahækkanir yrðu sambærilegar milli launþegahreyfinganna fjögurra árið 2018 og að sú hækkun nemi 32 prósentum frá nóvember 2013 til nóvember 2018.