Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir það ekki aðeins skort á fjármagni sem valdi vandræðum við uppbyggingu ferðamanna. Þar komi fleiri þættir til, til dæmis skipulagsmál, skortur á undirbúningi og skortur á verktökum.
Ragnheiður Elín er í viðtali í Fréttablaðinu í dag. Hún segir vinnu við að fækka undanþágum frá virðisaukaskatti í ferðaþjónustu vera hafna. Hvalaskoðunarferðir hafi verið teknar inn í kerfið, baðstaðir verði settir inn og þá séu eftir rútur og leigubílar. „Varðandi þrepin þá tek ég undir það sem komið hefur fram en við þurfum að fara kannski gætilegar í þeim efnum þar sem við erum í samkeppni við útlönd og það þarf að passa að við séum samkeppnishæf. Framtíðarstefnan er að vera bara með eitt virðisaukaskattþrep sem gildir almennt fyrir alla og án undanþága. Þannig kerfi vil ég sjá,“ segir hún.
Umræðan sem hún vísar til er það að Vigdís Hauksdóttir og Jón Gunnarsson þingmenn hafa lýst því yfir að þau telji rétt að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Þessu hefur ferðaþjónustan mótmælt, og Ragnheiður Elín segir að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vinni með Samtökum ferðaþjónustunnar í þessum málum.
Ragnheiður Elín segir að um tíu prósent af þeirri fjárhæð sem ákveðið var að veita í uppbyggingu ferðamannastaða hafi farið í að byggja upp salernisaðstöðu víða um land. Hún segir fréttir um salernismál ferðamanna hafa vakið athygli því þær hafi komið frá stöðum þar sem salernismál séu alveg í lagi. „Þetta er þá bara eitthvert hegðunarvandamál sem ég bara veit ekki hvernig á að leysa og það eru ferðaþjónustuaðilar sem þurfa að taka á þessu máli með sínum gestum. ÞEtta er bara meira eins og uppeldismál,“ segir hún.