Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir það koma til álita að sameina Íslandsbanka og Landsbanka, komi til þess að ríkið eignist Íslandsbanka að fullu, eins og ný tillaga kröfuhafa gerir ráð fyrir. Þetta er haft eftir Bjarna í Morgunblaðinu í dag. Hann segir þó að líta þurfi til annarra sjónarmiða sem meðal annars tengist samkeppni og samþjöppun á markaði.
Auk þess segist Bjarni ekki hafa áhyggjur af því þótt ríkissjóður verði stór eigandi að bönkunum í einhvern tíma. Það ástand geti þó ekki varað til langframa.
Landsbankinn er stærsti banki landsins og nema eignir hans alls nærri 1.200 milljörðum króna. Eignir Íslandsbanka nema um 976 milljörðum króna, og er að svipaðri stærð og Arion banki. Ef Íslandsbanki endar í fangi ríkisins þá mun ríkið eiga Landsbankann að 98 prósent hlut, Íslandsbanka að öllu leyti og 13 prósenta hlut í Arion banka, sem að öðru leyti er í eigu kröfuhafa. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag fjármálafyrirtækið Arctica Finance kanni möguleg kaup innlendra fjárfesta á Arion banka og hafi rætt við lífeyrissjóði og aðila tengda Guðbjörgu Matthíasdóttur, útgerðarkonu í Vestmannaeyjum.
Í gær var tilkynnt að íslenska ríkið væri að fara að eignast Íslandsbanka en fyrir á ríkið Landsbankann. Var þetta niðurstaða funda sem ráðgjafar stærstu kröfuhafa Glitnis, núverandi eiganda 95 prósent hlutar í Íslandsbanka, og framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta áttu vegna breytinga á stöðugleikaframlagi kröfuhafanna.
Glitnir hafði þegar lagt fram tilboð um stöðuleikaframlag, þar sem gert var ráð fyrir að bankinn yrði seldur, en skilaboðum var komið á framfæri við stærstu kröfuhafa Glitnis fyrir nokkrum vikum að fyrra tilboð þeirra fullnægði ekki stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda. Það var Seðlabanki Íslands, sem hefur það hlutverk að meta hvort slit búa föllnu bankanna hafi neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð Íslands, sem kom skilaboðunum á framfæri. Þessi samskipti áttu sér stað áður en fundarhöld stærstu kröfuhafa Glitnis og framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta hófust á ný 25. september síðastliðinn, samkvæmt heimildum Kjarnans.