„Já það er rétt, við höfum náð samkomulagi við Netflix, en það mun líklega ekki skýrast fyrr en síðsumars hvenær nákvæmlega þetta verður í boði,“ segir Árni Samúelsson, forstjóri Samfilm. Hann segir ennfremur ekki sé orðið ljóst ennþá hvað þjónustan muni kosta, en forsvarsmenn Netflix munu koma hingað til lands til þess að undirbúa uppsetningu þjónustunnar síðar á árinu. „Það er verið að skipuleggja mikla markaðsherferð í Evrópulöndum, og við munum koma inn í þá vinnu,“ segir Árni.
Sam-félagið er stærsta kvikmyndafyrirtæki og og rekstraraðili kvikmyndahúsa á Íslandi, bæði í dreifingu kvikmynda í kvikmyndahúsum og útgáfu dvd diska. Fyrirtækið er því rétthafi mikils magns efnis sem verður aðgengilegt hjá Netflix þegar veitan opnar hérlendis.
Netflix er streymiþjónusta þar sem hægt er að nálgast mikið magn kvikmynda, sjónvarpsþátta, barnaefnis, heimildarmynda og annars áhorfanlegs efnis. Þjónustan hefur þann augljósa kost fram yfir línulega sjónvarpsdagskrá að notendur geta horft á það efni sem þeir vilja þegar þeir vilja í nánast hvaða tæki sem þeir vilja. Áskrift að Netflix er auk þess mun ódýrari en áskrift að þeim sjónvarpsstöðum sem hægt er að gerast áskrifandi að á Íslandi.
Þrátt fyrir að þjónusta Netflix sé ekki í boði hérlendis er samt sem áður talið að um 20 þúsund íslensk heimili séu með aðgang að veitunni. Þjónustan hefur notið sívaxandi vinsælda síðustu ár, ekki síst eftir að framleiðsla á eigin efni hófst. Þáttaraðirnar House of Cards, Orange is the New Black og fjórða serían af Arrested Development eru allar dæmi um það.
Kjarninn greindi frá því í nóvember síðastliðnum að samningaviðræður Samfilm við forsvarsmenn Netflix væru langt komnar.