Fylgi Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar dalar á meðan fylgi Pírata, Viðreisnar og Framsóknar hefur aukist samkvæmt nýbirtri könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokka. Samfylkingin mælist nú í 10,9 prósentum sem er meira en prósentustigi undir kjörfylgi sitt í kosningunum árið 2017 og er fimmti stærsti stjórnmálaflokkur landsins.
Könnunin var framkvæmd á milli 7. og 12. maí og náði hún til 953 einstaklinga. Samkvæmt MMR voru svarendurnir valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegla samsetningu kjósenda á hverjum tíma.
Í frétt samhliða niðurstöðum könnunarinnar segir MMR að sveiflur á fylgi Sjálfstæðisflokksins, sem mælist nú í 25,6 prósentum en mældist tæpum 29 prósentum í lok síðasta mánaðar, gefa til kynna að nokkur gerjun eigi sér stað meðal kjósenda nú þegar hillir undir að faraldrinum taki að ljúka.
Fylgi Vinstri-grænna mældist nú 13, prósent, nær óbreytt frá síðustu könnun en fylgi Framsóknarflokksins jókst um tvö prósentustig og mældist nú 12,6 prósent. Fylgi Pírata jókst um tæp tvö prósentustig á milli mælinga og mældist nú 11,3 prósent og fylgi Viðreisnar jókst um tæp tvö prósentustig og mældist nú 10,6 prósent. Þá minnkaði fylgi Flokks fólksins um tæp tvö prósentustig og mældist nú 3,3 prósent.
Fylgi Sósíalistaflokksins lækkar lítillega frá síðustu könnun og mælist nú 5,7 prósent, miðað við 6 prósent í síðustu könnun. Fylgi Miðflokksins mælist einnig 5,7 prósent og hefur lækkað um 0,1 prósentustig milli kannana. Þetta er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur fengið frá stofnun hans.
Stuðningur við ríkisstjórnina mældist nú 55,1 prósent og minnkaði um rúmt prósentustig frá síðustu könnun, þar sem stuðningur mældist 56,2 prósent.