Á landsfundi Samfylkingarinnar, sem lauk síðdegis, var samþykkt að flokkurinn komi á róttækum breytingum á húsnæðismarkaði. Auka þurfi án tafar framboð á leiguhúsnæði, halda aftur af hækkun leiguverðs, hækka húsaleigubætur og gera fyrstu kaupendum og tekjulágum mögulegt að fjármagna sín fyrstu íbúðarkaup.
Þá vill flokkurinn að fallið verði frá áformum um olíuleit á Drekasvæðinu og stjórnvöld lýsi yfir að þjóðin hyggist ekki nýta mögulega jarðefnaorkukosti í lögsögu sinni í samhengi við samninga á alþjóðavettvangi um loftslagsmál. Vinnsla jarðefnaeldsneytis samræmist ekki hagsmunum Íslendinga og skapi hættu á mengunarslysum og umhverfisógn við fiskimið landsins. Þá skaði olíuvinnsla ímynd Íslands sem náttúruparadísar og ferðamannastaðar.
Þá var samþykkt að hefja vinnu sem miðar að því að lækka kosningaaldur niður í 16 ár, en að aldurstakmark kjörgengis haldist óbreytt, og að öll trúfélög hafi sömu stöðu gagnvart ríkisvaldinu.
Landsfundur Samfylkingarinnar lýsti jafnframt yfir stuðningi við tillögur náttúruverndarsamtaka um að stofna þjóðgarð á miðhálendinu, þar sem útilokuð er frekari uppbygging virkjana og orkuflutnings sem fellur ekki að verndarhlutverki þjóðgarðs.