Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji hagnaðist um rúmlega ellefu milljarða króna á síðasta ári. Arður til hluthafa vegna ársins verður 1,4 milljarðar króna eða 12,4 prósent af hagnaði félagsins. Tekjur félagsins á árinu voru rúmlega 78 milljarðar króna og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 16,4 milljörðum króna, samanborið við 25,4 milljarða króna árið á undan. Þá nam söluhagnað 8,1 milljarði. Afkoma af reglulegri starfsemi var svipuð milli ára.
Greint er frá afkomu síðasta árs á vefsíðu Samherja í dag. Fram kemur að samtals greiddi félagið 3,5 milljarða króna í opinber gjöld, þar af 2,6 milljarða króna í tekjuskatt og 900 milljónir króna í veiðileyfagjald. Tæplega helmingur af starfsemi Samherja samstæðunnar er erlendis en félagið seldi afurðir til 60 landa í fyrra, þar af til 23 landa í Afríku.
Eignir Samherja um áramót námu samtals 116,2 milljörðum króna. Heildarskuldir og skuldbindingar á sama tíma voru 40,8 milljarðar og bókfært eigið fé 75,3 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 64,8% í árslok. Veltufjármunir námu 36,7 milljörðum króna og peningalegar eignir umfram skuldir 4,2 milljörðum króna. Arðgreiðsla til hluthafa verður 1,4 milljarðar króna sem nemur 12,4% af hagnaði félagsins samanborið við 3,3 milljarða króna arðgreiðslu vegna ársins 2013.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir að árið 2014 hafi farið illa af stað og fyrri helmingur ársins hafi ekki gefið tilefni til bjartsýni varðandi reksturinn. „Margt spilaði þar inn í. Til dæmis tókust ekki samningar um aflaheimildir milli Noregs og Evrópusambandsins fyrr en í mars og á meðan lágu skip okkar í Evrópu bundin við bryggju. Einnig var loðnuvertíðin með allra slakasta móti og afurðaverð á ferskum þorski var lágt. Á seinni helmingi ársins tókst engu að síður að veiða og nýta vel þær heimildir sem samstæðan hefur yfir að ráða og afurðaverð fór hækkandi. Rekstrarafkoma ársins 2014 er því mjög sambærileg árinu áður sem ég get ekki annað en verið ánægður með,“ segir Þorsteinn Már.
Landslagið gjörbreytt
Á vef Samherja er farið yfir þær breytingar sem orðið hafa á mörkuðum að undanförnu, vegna innflutningsbanna í Rússlandi og Nígeríu. Landslagið er gjörbreytt á öllum helstum mörkuðum Samherja fyrir uppsjávarafurðir, segir Þorsteinn.
„Innflutningsbann er til Nígeríu og gjaldeyrisskortur en þangað höfum við flutt mikið af uppsjávarafurðum og allar okkar þurrkuðu afurðir. Ekki sér fyrir endann á innflutningsbanni Rússa á íslenskar afurðir, þangað sem við fluttum afurðir fyrir vel á fimmta milljarð á síðasta ári. Við trúum því að þau mál muni leysast og höldum áfram að rækta okkar tryggu viðskiptasambönd þar í landi sem hafa byggst upp á löngum tíma og gagnkvæmu trausti. Þriðji stóri markaður okkar fyrir uppsjávarafurðir hefur verið í Úkraínu. Þar eru aðstæður mjög erfiðar og mikill samdráttur hefur verið í innflutningi. Það eru því ærin verkefni framundan að leita leiða til að hámarka verðmæti uppsjávarafla okkar á næstu misserum.
Verkefnin eru til að leysa og það er af nógu að taka en við erum vel í stakk búin að takast á við síbreytilegar aðstæður. Við höfum mikið af hæfu starfsfólki sem hefur tekist á við fjölmargt með okkur. Við munum þétta raðirnar til að klára þessar fjárfestingar og mæta áskorunum sem framundan eru,“ segir hann.