Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar segir að íslenskur almenningur sé reglulega minntur á mikilvægi virkrar samkeppni og kostnaðinn sem fylgir samkeppnisskorti, hvort sem um sé að ræða fákeppni í bankaþjónustu, á tryggingamarkaði, eldsneytismarkaði, í landbúnaði eða sjávarútvegi. Áhrifin séu alltaf þau sömu, neytendum í óhag.
Þetta kom fram í máli formannsins á Alþingi í vikunni en síðasti þingfundurinn fyrir sumarfrí var aðfaranótt fimmtudags.
Hún telur jafnframt að fákeppnishagnaður í fjármálakerfinu sé ástæða þess að hér sé dýrasta bankaþjónusta í Evrópu. Þennan kostnað þurfi fyrirtæki og almenningur að sitja uppi með. Sömu sögu sé að segja með tryggingaþjónustu. Hátt matvöruverð og eldsneytisverð hafi einnig leikið Íslendinga grátt.
Segir ríkisstjórnina ekki vilja ræða málin
Þorgerður Katrín sagði að þessi vandamál væru að mestu afleiðing samkeppnisleysis og pólitískra ákvarðana. Virkari samkeppni á markaði væri brýn nauðsyn fyrir neytendur, ekki síst með verðbólguna grasserandi eins og nú væri. Meðan þetta væri hins vegar eitt af forboðnum umræðuefnum stjórnvalda þá breyttist lítið.
Hún sagði enn fremur að ríkisstjórnin kysi að stinga höfðinu í sandinn frekar en að ræða af einhverri alvöru hvernig tryggja mætti eðlilega samkeppni, til að mynda á vöru- og þjónustumarkaði.
„Þess vegna var tillaga okkar, um heildstæða úttekt á áhrifum virkrar samkeppni, ekki afgreidd úr nefnd á sínum tíma, ekki heldur á þinginu sem nú er að líða, ekki frekar en tillaga okkar um mat á samkeppnisrekstri ríkisins. Þess vegna er enginn áhugi á tillögum okkar um að almennar samkeppnisreglur ríki í landbúnaði og enginn áhugi er á að markaðslögmál gildi í sjávarútvegi. Og svo er auðvitað enginn, ekki nokkur, áhugi á að ræða vaxtamuninn í fjármálaþjónustu og áhrif sífelldra gengisbreytinga á íslenskt atvinnu- og heimilislíf.
Þetta eru risaþættir í samkeppni, hvernig við getum aukið lífsgæði fólks, og ríkisstjórnin vill ekki ræða þessi mál. Samkeppni er ekki inn á radarnum hjá ríkisstjórninni, svo einfalt er það, og fyrir vikið ráða sérhagsmunir,“ sagði hún að lokum.