Forstjóri Múrbúðarinnar, Baldur Björnsson, segir Steinull hf., sem áður hét Steinullarverksmiðjan, stunda dulda álagningu sem gagnist eigendum hennar, Byko og Húsasmiðjunni, en skaði aðra sem keppa á byggingavörumarkaði. Hún fari fram með þeim hætti að eigendurnir taki framlegð sína af sölu steinullar út sem arðgreiðslur frá Steinull hf. í stað þess að leggja eðlilega á vöruna í verslunum sínum. Steinull hefur greitt Byko og Húsasmiðjunni samtals um 110 milljónir króna í arð á síðustu þremur árum. Einar Einarsson, forstjóri Steinullar, hafnar ásökunum Baldurs með öllu. Hann segir stóran hluta veltu fyrirtækisins vera erlendis og að ákvarðanir um arðgreiðslur hafi ekki byggst á annarlegum sjónarmiðum í því skyni að standa vörð um stöðu eigendanna á samkeppnismarkaði.
Meint brot Steinullar á skilyrðum sem sett voru fyrir eignarhaldi Byko og Húsasmiðjunnar á fyrirtækinu fyrir rúmum áratug eru í rannsókn hjá Samkeppniseftirlitinu. Gamla Húsasmiðjan – nýir eigendur tóku við Húsasmiðjunni á nýrri kennitölu fyrir tæpum þremur árum – hefur viðurkennt að hafa brotið gegn skilyrðunum.
Ríkið á meðal stofnenda
Undirbúningur að starfsemi Steinullarverksmiðjunnar á Sauðarkróki hófst snemma á níunda áratugnum og fyrsta framleiðsla hennar leit dagsins ljós síðla árs 1985. Helstu stofnendur voru íslenska ríkið, Sauðárkróksbær, finnska fyrirtækið Partek AB og Kaupfélag Skagfirðinga. Reksturinn gekk upp og ofan framan af. Meðal annars þurfti að auka við hlutafé félagsins nokkrum árum eftir að það hóf starfsemi.
Skömmu eftir aldamót, nánar tiltekið í ágúst 2001, samþykkti byggðarráð Skagafjarðar að óska eftir formlegum viðræðum við aðra hluthafa í Steinullarverksmiðjunni um sölu á hlutabréfum í henni. Sveitarfélagið gerði öðrum eigendum í kjölfarið tilboð, sem ríkið hafnaði. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja árin 1998-2003 er fjallað nokkur ítarlega um það sem gerðist í kjölfarið. Þar segir: „Í síðari hluta desember 2001 gerðu GLD heildverslun [í eigu Húsasmiðjunnar og Byko] og Kaupfélag Skagfirðinga sameiginlegt tilboð í 52% eignarhlut sveitarfélagsins og Paroc Group. Þetta þýddi að þessir aðilar hefðu haft um 70% eignarhlut í verksmiðjunni. Þegar ljóst var að Paroc Group hafði breytt afstöðu sinni og var tilbúið til að selja lagði ríkið til að þessir þrír aðilar sameinuðust um að óska eftir tilboðum í bréfin. Því hafnaði sveitarfélagið sem lagði alla áherslu á að ljúka sölunni sem allra fyrst. Eftir að þetta söluferli var komið af stað gat ríkið, sem 30% eigandi, ekki haft mikil áhrif á gang mála“.
Ríkið seldi því hlut sinn snemma árs 2002, eftir að aðrir eigendur höfðu í raun stillt því upp við vegg. Það fékk alls 220,1 milljón króna fyrir 30,11 prósenta eignarhlut sinn. Skráður hagnaður í bókhaldi ríkisins var 116,5 milljónir króna.
Byko og Húsasmiðjan á meðal eigenda
Stærstu eigendur Steinullar hf. í dag eru Byko (24,5 prósent), Húsasmiðjan (24,5 prósent) og Kaupfélag Skagfirðinga (24,5 prósent). Kaupfélagið á auk þess óbeint 15 prósent í viðbót í gegnum félagið Íslensk Kínverska ehf. Afgangurinn, 11,5 prósent, eru í eigu finnska félagsins Paroc Group Oy AB.
Samkvæmt síðasta birta mati Samkeppniseftirlitsins er markaðshlutdeild hennar í framleiðslu á steinull, sem er notuð í einangrun í nánast öllum byggingum sem byggðar eru hérlendis, um eða yfir 90 prósent. Það ber þó að taka fram að matið er rúmlega áratugs gamalt. Byko og Húsasmiðjan eru síðan með sameiginlega yfirburðastöðu á grófvörumarkaði, meðal annars í sölu steinullar.
Rekstur Steinullar hf. hefur líka gengið afbragðsvel undanfarin ár. Veltan hefur aukist hratt. Árið 2010 var hún 704 milljónir króna en í fyrra var hún komin upp í 924 milljónir króna. Það er tæplega þriðjungsaukning á þremur árum.
Vegna þessa góða reksturs hefur Steinull greitt eigendum sínum góðan arð. Vegna ársins 2011 fengu þeir 100 milljónir króna. Ári síðar voru greiddar út 50 milljónir króna og í fyrra um 75 milljónir króna. Samtals nema arðgreiðslurnar því 225 milljónum króna á þremur árum.
Af þeirri upphæð hafa 110,3 milljónir króna farið til Byko og Húsasmiðjunnar.
Á sama tíma hefur rekstur þessara risa íslensks byggingavörumarkaðar gengið afleitlega. Húsasmiðjan tapaði 1,6 milljarði króna árið 2011, 179 milljónum króna árið 2012 og 174,5 milljónum króna árið 2013. Frá því að nýir eigendur, danska byggingakeðjan Bygma, tóku við fyrirtækinu í upphafi árs 2012 hefur það því tapað 353,5 milljónum króna.
Rekstur Byko hefur gengið enn verr. Fyrirtækið tapaði 352,4 milljónum króna árið 2011, 390,8 milljónum króna árið 2012 og 156 milljónum króna í fyrra.
Rannsókn stendur yfir
Í tilkynningu sem Samkeppniseftirlitið sendi frá sér 11. júlí síðastliðinn, þar sem greint er frá því að rannsókn þess á brotum Húsasmiðjunnar sé lokið með sátt, segir: „Viðurkennt er að gamla Húsasmiðjan hafi brotið gegn skilyrðum sem sett voru í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 19/2002. Þau skilyrði voru sett vegna kaupa Byko, Húsasmiðjunnar og Kaupfélags Skagfirðinga á eignarhlutum í Steinullarverksmiðjunni hf. (nú Steinull hf.). Skilyrðunum var ætlað að vinna gegn því að sameiginleg eignaraðild Byko og Húsasmiðjunnar að Steinull myndi takmarka samkeppni. Játað er að gamla Húsasmiðjan hafi brotið gegn skilyrðunum, m.a. með því að hafa beitt sér gagnvart Steinull til að koma í veg fyrir að Múrbúðin fengi ákveðin viðskiptakjör og þannig haft skaðleg áhrif á samkeppnisstöðu Múrbúðarinnar á grófvörumarkaði“.
Kjarninn óskaði eftir upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu um með hvaða hætti Steinull hf. hefði komið í veg fyrir að Múrbúðin fengi ákveðin viðskiptakjör. Í skriflegu svari Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, við fyrirspurninni kemur fram að brot Steinullar hf. séu enn til rannsóknar hjá eftirlitinu. Á meðan að niðurstaða er ekki fengin í málinu gagnvart Steinull getum við ekki tjáð okkur um ætluð brot þess fyrirtækis að öðru leyti en að vísa til þeirra skilyrða sem sett voru í ákvörðun 19/2002,“ segir ennfremur í svari Páls.
Skilyrðin sem sett voru eru sjö. Á meðal þess sem þau eiga að tryggja er að viðskiptakjör allra viðskiptamanna Steinullar hf. séu almenn, að Steinull sé óheimilt að útiloka ákveðna viðskiptamenn frá viðskiptum við fyrirtækið, Byko og Húsasmiðjunni er óheimilt að beita sér gegn Steinull þannig að það miði að því að hafa áhrif á samkeppnisstöðu annarra viðskiptavina og forsvarsmönnum Steinullar er óheimilt að veita eigendum sínum upplýsingar um viðskiptakjör annarra viðskiptavina. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins snýst um ætluð brot á einhverjum þessarra skilyrða.
Telur eigendur sleppa framlegð í verslun en taka hana út með arði
Baldur Björnsson, forstjóri Múrbúðarinnar, sem rak grófvörudeild og seldi steinull í rúm þrjú ár, en hefur nú lokað henni, segir að Steinull hf. stundi dulbúna álagningu sem gagnist eigendum hennar, Byko og Húsasmiðjunni. „Þetta er ofurhagnaðarfyrirtæki sem er með fjarlægðarvernd frá öðrum mörkuðum. Og þetta er bara dulbúin álagning sem birtist í verðunum þeirra.“
Að sögn Baldurs reyndi Múrbúðin að selja Steinull á kostnaðarverði. Hún seldist samt ekki. „Við byrjuðum að leggja á steinullina 18 prósent, fórum svo fljótt niður í 15 prósent og alla leið niður í tíu prósent. Varan seldist samt ekki. Við prófuðum meira að segja að bjóða vöruna á kostnaðarverði en fengum samt ekki viðskiptin.
Við rákum þessa grófvörudeild í rúm þrjú ár og seldum allar vörur í henni sem þurfti. Við vorum með hörkufínt vöruúrval og gátum selt flestar vörur með 18 til 30 prósenta framlegð. En þetta er tilboðsmarkaður. Auðvitað er erfitt að segja nákvæmlega hvað það var sem gerði það að verkum að verktakar ákváðu ekki að skipta við okkur. Þeir eiga auðvitað alltaf síðasta orðið. En ef við vorum ekki samkeppnishæfir í verði á lykilvöru eins og steinull þá skipti það að sjálfsögðu miklu máli.Steinull er algjör lykilvara til að komast inn á þennan markað.“
Baldur segir að framlegðin hefði þurft að vera á bilinu 15 til 20 prósent svo það hefði borgað sig að selja steinull. „Þetta er mjög rúmfrek vara. Einn 40 feta gámur dugar ekki til að einangra heilt einbýlishús. Hún tekur því rosalegt pláss í vöruhúsi sem kostar til viðbótar við fjárbindingu og annan sölukostnað.“
Forstjóri Steinullar fullyrðir að Byko og Húsasmiðjan hafi fengið sömu viðskiptakjör og Múrbúðin. Baldur rengir það ekki en segir augljóst að fyrirtækin tvö hafi greinilega ekki lagt nægilega mikið á steinull til að það myndi svara kostnaði. Þess í stað virðist þau taka út framlegð sína í gegnum arðgreiðslur sem eigendur að Steinull hf. „Bæði Byko og Húsasmiðjan voru að tapa 500 milljónum krónum á ári fyrir skatta á þessu tímabili. Það er erfitt að ímynda sér að það hafi verið mikið svigrúm hjá þeim að fara í verðstríð við okkur.“
Steinull braut ekki skilyrðin og engar duldar greiðslur til hluthafa
Einar Einarsson, forstjóri Steinullar hf., segir að fyrirtækið hafi ávallt leitast við að fylgja skilyrðum sem voru sett fyrir kaupum Byko og Húsasmiðjunnar árið 2002. „Þótt gamla Húsasmiðjan hafi viðurkennt að hafa brotið skilyrðin hefur það ekkert með Steinull hf. að gera. Mikill misskilningur er hjá forsvarsmönnum Múrbúðarinnar að halda að það sé samasemmerki á milli þess að Húsasmiðjan hafi brotið skilyrði, með því að reyna að hafa áhrif á Steinull, og þess að Steinull hafi gengið svo langt að brjóta skilyrðin.
Afurðir verksmiðjunnar á innanlandsmarkaði eru seldar samkvæmt einum og sama verðlista og viðskiptavinir njóta allir afslátta í samræmi við sömu viðmiðunarreglur, sem kynntar voru samkeppnisyfirvöldum 2002 og eru enn óbreyttar og er hámarksmagnafsláttur því sá sami og var þá. Ég þarf vonandi ekki að taka fram að ekki er um neina eftirágreidda afslætti að ræða eða aðrar duldar greiðslur til hluthafa.“
Að sögn Einars hafa allar verðhækkanir sem átt hafa sér stað á árunum 2010-2014 tekið mið af kostnaðarhækkunum við framleiðsluna. „Í stefnu Steinullar hf. frá 2002 um fjárhagsleg markmið fyrirtækisins segir að stefnt sé að 20 prósenta arðsemi eiginfjár og að eiginfjárhlutfall verði á bilinu 40 – 60 prósent. Stefnt er að því að greiða eigendum 10 prósenta arð. Þessi markmið tóku ekki síst mið af tillögum Paroc OY AB, sem er stórframleiðandi á steinull og eigandi 11,5 prósenta hlutafjárins.
Hagnaður Steinullar hf. árin 2008 -2013 er samtals um 480 milljónir eða um 80 milljónir á ári að meðaltali. Rétt er að fram komi að sala á innanlandmarkaði er ekki eina stoðin í rekstri fyrirtækisins heldur hefur tekist að byggja upp afar mikilvægan útflutningsmarkað í Færeyjum, Bretlandi og Norður-Evrópu, sem skapað hefur verulegan hluta hagnaðar fyrirtækisins.
Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins í lok árs 2008 var komið niður undir 20 prósent og því var enginn arður greiddur hluthöfum árin 2009, 2010 og 2011. Í lok árs 2011 var eiginfjárhlutfallið komið upp í 56% og því tekin ákvörðun um 100 milljón króna arðgreiðslu árið 2012. Árið 2013 ákvað aðalfundur að greiða hluthöfum út 50 milljónir í arð. Frá 2011 hefur eiginfjárhlutfallið verið 55 - 60 prósent, sem er nálægt efri mörkum samkvæmt stefnu fyrirtækisins. Samtals nema arðgreiðslur fyrirtækisins því 150 milljónum árin 2009 - 2013. Eigið fé hefur síðustu árin verið um 500 milljónir.“
Einar segir að ofangreint sýni ljóslega að ákvarðanir um arðgreiðslur hafi alfarið tekið mið af stefnu stjórnar fyrirtækisins um að reka heilbrigt og öflugt fyrirtæki, ekki byggst á annarlegum sjónarmiðum í því skyni að standa vörð um stöðu eigendanna á samkeppnismarkaði líkt og ýjað hefur verið að.
„Mér er ómögulegt að finna nokkuð í skilyrðum Samkeppnisráðs frá 2002 eða samkeppnislögum, sem bannar arðgreiðslur til hluthafanna enda augljóst að ef svo hefði verið, hefði aldrei skapast grundvöllur fyrir kaupum núverandi eignaraðila, eða annarra, á hlutum í fyrirtækinu.“