Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta hefur náð samkomulagi við hollenska seðlabankann (DNB) og breska innstæðutryggingasjóðinn (FSCS) um lokauppgjör krafna vegna Icesave. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta.
Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta greiðir Hollendingum og Bretum samtals 20 milljarða íslenskra króna úr B deild sjóðsins, en í þeirri deild eru fjármunir sem að mestu leyti var safnað fyrir bankahrunið, að því er fram kemur í tilkynningunni.
DNB og FSCS hafa eins og aðrir forgangskröfuhafar hjá þrotabúi gamla Landsbankans fengið greiðslur frá gamla Landsbankanum sem nema um 85 prósentum af höfuðstól krafnanna.
Guðrún Þorleifsdóttir er formaður stjórnar tryggingarsjóðsins og segist vera mjög ánægð með að búið sé að ná samningum um lokafrágang Icesave skuldbindinganna með greiðslu sem sé „vel viðráðanleg fyrir TIF og sanngjörn gagnvart öllum aðilum ágreiningsins.“
Viðræður um Icesave hafa staðið yfir allt frá því í lok október 2008. Eins og þekkt er voru samningar sem gerðir voru um greiðslur felldir tvisvar sinnum í þjóðaratkvæðagreiðslum hér á landi.
Fréttin verður uppfærð.