Samráðshópur um afnám hafta, sem í sitja fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi, hefur verið boðaður til fundar klukkan 10:30. Þar verður áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta kynnt í fyrsta sinn fyrir fulltrúum stjórnarandstöðuflokka. Í kjölfarið munu þingflokkar funda og kynning á áætluninni fyrir almenning og fjölmiðla hefst síðan klukkan 12 í Hörpu.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sagði í þingræðu í gærkvöldi, þegar breytingar á lögum um gjaldeyrismál voru samþykkt, að samráðshópurinn hafi ekki verið boðaður til funda í sex vikur. Leki á upplýsingum um innihald haftalosunaráætlunar stjórnvalda, sem birtust í DV síðastliðinn föstudag, gætu því ekki hafa komið frá stjórnarandstöðunni. Steingrímur sagði að fulltrúar Seðlabankans hefðu upplýst efnahags- og viðskiptanefnd um að lekinn væri ástæða þess að nauðsynlegt þótti að breyta lögum á sunnudegi, fyrir opnun markaða. „Þarna á sér stað hættulegur, raunverulegur og skaðlegur leki,“ sagði Steingrímur. Hann bað Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um að útskýra lekann.
Í DV á föstudag kom fram að til stæði að gefa slitabúum föllnu bankanna nokkrar vikur til að mæta skilyrðum stjórnvalda til að leyfa þeim að klára nauðasamninga sína. Skilyrðin eru sett til að vernda greiðslujöfnuð og þýða að búin þurfa að gefa eftir miklar krónueignir, sem að sögn DV eiga að vera allt að 500 milljarðar króna. Takist ekki að semja við búin á þessum vikum verður lagður á þau svokallaður stöðugleikaskattur, sem DV sagði að yrði 40 prósent.