Samráðsnefnd þingflokka um afnám fjármagnshafta fundaði síðastliðinn föstudag, samkvæmt heimildum Kjarnans. Fundurinn var haldinn rétt fyrir lokun markaða, en eftir að þeir lokuðu tilkynnti Seðlabankinn að hann hefði breytt undanþágulistum og reglum vegna gjaldeyrismála til þess að búa í haginn fyrir frekari skref í átt að losun fjármagnsafta. Í nefndinni sitja fulltrúar allra þingflokka.
Á fundinum voru þessar breytingar kynntar fyrir samráðsnefndinni. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sat fundinn fyrir hönd stýrinefndar um losun hafta og kynnti áætlanir Seðlabankans fyrir samráðsnefndinni. Framkvæmdastjórn um losun hafta, sem er stýrt af Glenn Kim, sat ekki fundinn. Ekkert annað var á dagskrá fundarins.
Byrjað að hrinda Project Slack í framkvæmd
Þetta var fyrsti fundur sem boðaður hefur verið með samráðsnefndinni síðan í desember 2014. Í byrjun þess mánaðar voru tvær hugmyndir sem tengjast losun fjármagnshafta kynntar fyrir nefndinni. Önnur hugmyndin snérist um að knýja eigendur aflandskróna til aðskipta eignum sínum yfir í skuldabréf til meira en 30 ára, en þær krónur eru nú um 300 milljarðar króna. Hún kallast Project Slack. Sú breyting sem Seðlabankinn tilkynnti um á föstudag er talin vera fyrsta skref í þá átt.
Hin hugmyndin snérist um flatan útgönguskatt á allar eignir sem vilja yfirgefa íslenska hagkerfið. Ekkert var rætt um hversu hár slíkur skattur ætti að vera á þessum fundi. Morgunblaðið sagði í lok síðasta árs að hann ætti að vera um 35 prósent, Bloomberg-fréttaveitan sagðist hafa heimildir fyrir því að hann ætti að vera 20-45 prósent, Indefence-hópurinn hefur kallað eftir því að hann verði um 60 prósent og Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, hefur sagt opinberlega að hann telji að útgönguskattur eigi að vera allt að 70 prósent.
Bjarni Benediktsson sagði hins vegar á Alþingi í síðustu viku að engin ákvörðun hefði verið tekin um útgönguskatt. „Þaðan af síður hef ég boðað einhverja tiltekna prósentu, sem menn eru farnir að vísa til,“ sagði Bjarni.
Lee Buchheit, sem leiddi á sínum tíma síðustu Icesave- samninganefndina. Hann er einn helsti ráðgjafi íslenska ríkið við losun hafta.
Brot á trúnaði getur skilað mönnum í fangelsi
Kjarninn greindi frá því í gær að sérfræðingar, innan og utan stjórnarráðsins, sem taka þátt í vinnu við losun fjármagnshafta eru bundnir af innherjareglum sem staðfestar voru af Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, 7. október 2014 og tóku gildi 1. nóvember síðastliðinn. Brjóti þeir gegn viðkomandi reglum gætu þeir átt allt að sex ára fangelsisvist yfir höfði sér. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um trúnaðaryfirlýsingar vegna vinnu við losun fjármagnshafta.
Það eru ekki bara sérfræðingarnir sem þurfa að skrifa undir skjöl vegna haftalosunaráætlunar. Þeir þingmenn sem sitja í samráðsnefnd þingflokka um afnám fjármagnshafta hafa allir undirritað þagnarheit sem í felst að þeir gæti „þagmælsku um atriði sem ég kann að fá vitneskju um í starfi mínu fyrir hópinn sem leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan skal haldast þótt störfum hópsins sé lokið“.
Þegar þingmennirnir skrifuðu undir þagnarheitið var þeim einnig gert ljóst að þeir kunni, í tengslum við störf hópsins, að fá vitneskju um innherjaupplýsingar og teljist þar með innherjar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.