Samráðsnefnd um afnám fjármagnshafta hefur verið boðuð til fundar í hádeginu í dag. Samkvæmt heimildum Kjarnans stendur til að kynna henni stöðu stjórnvalda í vegferð þeirra í átt að losun fjármagnshafta. Í samráðsnefndinni sitja Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar Framtíðar, Jóhann Haukur Gunnarsson, fulltrúi Pírata og Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu er formaður nefndarinnar.
Ráðgjafanefndin skipuð í sumar
Í lok síðustu viku var slitabúi Landsbankans veitt heimild fyrir undanþágu frá fjármagnshöftum svo hann gæti greitt forgangskröfuhöfum sínum 400 milljarða króna til viðbótar við það sem þegar er búið að greiða þeim. Á móti samþykkti slitabúið að lengja í greiðslum á skuldabréfum sem nýi Landsbankinn skuldar honum, upp á 248 milljarða króna, fram til ársins 2026. Áður átti að greiða skuldabréfin upp í október 2018.
Í byrjun júlí 2014 samdi fjármála- og efnahahagsráðuneytið við lögmannsstofuna Cleary Gottlieb Steen & Hamilton LLP, ráðgjafafyrirtækið White Oak Advisory LLP og Anne Krueger, prófessor í hagfræði við John Hopkins University og fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um að vinna með íslenskum stjórnvöldum að losun fjármagnshafta. Hjá Cleary Gottlieb Steen & Hamilton starfar lögmaðurinn Lee Buchheit, sem leiddi á sínum tíma síðustu Icesave- samninganefndina. Hann hefur stýrt vinnu lögmannsstofunnar í þessu verkefni.
Hjá Cleary Gottlieb Steen & Hamilton starfar lögmaðurinn Lee Buchheit, sem leiddi á sínum tíma síðustu Icesave- samninganefndina. Hann hefur stýrt vinnu lögmannsstofunnar í þessu verkefni.
Samhliða réð Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fjóra sérfræðinga til að vinna að losun hafta í nokkurs konar framkvæmdastjórn með fyrrgreindum ráðgjöfum og í umboði stýrinefndar. Þeir eru Benedikt Gíslason, ráðgjafi fjármála- og efnahagsráðherra í haftamálum, Eiríkur Svavarsson, hrl., Freyr Hermannsson, forstöðumaður fjárstýringar Seðlabanka Íslands og Glenn V. Kim sem jafnframt leiðir verkefnið.
Slitastjórnir á fund á morgun
Bloomberg greindi frá því í lok síðustu viku að til stæði að kynna áætlanir stjórnvalda við losum hafta fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í morgun. Það reyndist ekki rétt. Kjarninn hefur greint frá því að í tillögum framkvæmdastjórnar um losun fjármagnshafta felist meðal annars tillögur um að lagt verði á sérstakt útgöngugjald á útgreiðslur til erlendra aðila sem eigi kröfur á fallna banka, vilji þeir komast út úr íslensku höftunum. Morgunblaðið hefur sagt að tillögurnar geri ráð fyrir að skatturinn verði 35 prósent og að engin greinarmunur verði gerður á því hvort greiðslurnar verði framkvæmdar í íslenskum krónum eða gjaldeyri. Allt sé undir.
Verði það niðurstaðan er ljóst að slitabúin verði að greiða nokkur hundruð milljarða króna í sérstakan skatt í ríkissjóð.
Í þeim tillögum sem liggja fyrir er stefnt að því að vinna á aflandskrónuvandanum sem til staðar er utan þrotabúa föllnu bankanna og gagnvart því að veita innlendum aðilum tækifæri til að fjárfesta utan hafta í erlendum verðbréfum.
Slitastjórnir Glitnis, Kaupþings og Landsbankans hafa síðan verið boðaðar á fund ráðgjafarnefndar um losun fjármagnshafta á morgun klukkan 14. Fundurinn mun fara fram á Grand hótel í Reykjavík og á honum eiga slitastjórnirnar að kynna afstöðu sinna til þeirra skilyrða sem stjórnvöld setja fyrir veitingu undanþága frá fjármagnshöftum, sem er forsenda þess að hægt verði að klára nauðasamninga búanna og slíta þeim. Allir fulltrúar slitastjórnanna eiga að funda með ráðgjafahópnum í einu.