Sara Björk Gunnarsdóttir, lykilleikmaður í landsliði kvenna í knattspyrnu, spáir því að Ísland og Tékkland geri 1-1 jafntefli í leiknum mikilvæga í kvöld, í fjórðu umferð í undankeppni EM sem fer fram í Frakklandi árið 2016. Staðan í riðlinum er önnur en Ísland á að venjast. Ísland er á toppi riðilsins, hefur unnið alla þrjá leiki sína til þessa og er með markatöluna 8-0. Sannarlega ótrúleg staða.
Kjarninn setti sig í samband við Söru Björk og spurði út í leikinn mikilvæga, meðal annars hvaða leikmaður hún teldi að væri vanmetnasti leikmaður liðsins. „Ég myndi segja að Emmi Hall [Emil Hallfreðsson] væri það en hann er að fá það hrós sem hann á skilið núna,“ sagði Sara Björk. Hún spáir því að Emil skori mark Íslands í leiknum.
Tékkar hafa byrjað undankeppnina með svipuðum hætti og Íslendingar, hafa unnið alla leiki sína og eru með markatöluna 7-3. Í þriðja sæti riðilsins eru Hollendingar með þrjú stig, en þeir hafa tapað leikjum sínum gegn bæði Tékkum og Íslendingum.
Leikurinn hefst klukkan 19:45 og er í beinni útsendingu á RÚV.