Sautján fyrirtæki í Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF) skora á stjórn samtakanna að hún beiti sér fyrir því að tekin verði upp sérstök komugjöld á Íslandi, til að fjármagna viðhald og uppbyggingu ferðamannastaða. Þetta kemur fram í sameiginlegri áskorun sem fyrirtækin sendu stjórn SAF á föstudaginn og Kjarninn hefur undir höndum.
Vilja að SAF beiti sér fyrir vilja félagsmanna
Í áskoruninni segir að með því móti myndi stjórn SAF starfa í samræmi við vilja og sannfæringu meirihluta félagsmanna, sem fram hafi komið í skoðanakönnun samtakanna í haust. Kjarninn sagði frá niðurstöðum umræddrar könnunnar í desember, en þar var umdeildur náttúrupassi settur í sjötta sætið yfir þá valkosti sem félagsmenn SAF vildu að samtökin myndu berjast fyrir til að standa undir fjármögnun á nauðsynlegu viðhaldi og uppbyggingu ferðamannastaða á Íslandi.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar vildi yfirgnæfandi meirihluti félagsmanna SAF að sérstökum komugjöldum í þágu náttúruverndar yrði komið á. Því kom það mörgum félagsmönnum innan SAF á óvart þegar stjórn samtakanna ákvað að leggja til að gistináttagjaldið yrði hækkað, sem var fjórði álitlegasti valkosturinn að mati félagsmanna SAF samkvæmt skoðanakönnuninni. Óánægja með ákvörðun stjórnarinnar leiddi að minnsta kosti til einnar úrsagnar úr samtökunum og Kjarninn hefur heimildir fyrir því að fleiri ferðaþjónustufyrirtæki séu að íhuga að segja skilið við SAF vegna þessa.
Telja að ekki náist sátt um náttúrupassa
Þá segir orðrétt í áskorun ferðaþjónustufyrirtækjanna til stjórnar SAF: „Þó að liggi fyrir tillaga iðnaðarráðherra (um náttúrupassa), þá á hún eftir að fá þinglega meðferð og margt í umræðunni bendir til að um þá tillögu náist ekki sátt. Því er brýnt að SAF komi með nýtt útspil, sem reikna má með að um náist víðtæk sátt, bæði meðal félagsmanna SAF, félagasamtaka sem tengjast ferðaþjónustu, annarra sem við ferðaþjónustu starfa og þjóðarinnar allrar.“
Ljóst er að töluverður þungi er fólginn í áskoruninni til stjórnar SAF, sérstaklega í ljósi þess að nokkur umsvifamikil ferðaþjónustufyrirtæki eru á listanum. Þeirra á meðal eru Center Hotels, GoNorth ehf., Hotel Cabin/Klettur/Örk, Iceland Excursions, Kea-hotels, Norðursigling og Viator ehf.
Ferðamenn slaka á í náttúru Íslands.
Röngum upplýsingum haldið á lofti
Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Viator, segir, í samtali við Kjarnann, að SAF séu komin aftur á byrjunarreit eftir að Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, hafnaði málamiðlunartillögu stjórnar samtakanna um hærra gistináttagjald. „Það er nauðsynlegt að næstu skref verði tekin í samræmi við vilja félagsmanna. Það er óskiljanlegt að komugjaldsleiðinni hafi verið ýtt út af borðinu án nokkurar skoðunar og þar hafi beinlínis röngum upplýsingum, um að sú leið væri ólögleg, verið haldið á lofti. Gögn sem sanna hið gagnstæða hafa ekki verið lögð fram og þar af leiðandi ekki fengið neina umfjöllun.“
Helstu rök ráðherra ferðamála og SAF gegn komugjöldum hafa verið að þau brjóti í bága við alþjóðasamninga á borð við EES-samninginn og Schengen. Samkvæmt lögfræðiáliti frá lögmannsstofunni LEX, sem unnið var fyrir SAF, eru komugjöld hins vegar raunhæfur kostur. Kjarninn sagði frá lögfræðiálitinu sem unnið var fyrir SAF í desember. Niðurstaða lögfræðiálitsins á svo sem ekki að koma á óvart, þar sem komugjöld lifa góðu lífi víða í Evrópu, eins og Kjarninn hefur greint frá.
Hætta á að SAF klofni eða liðist í sundur
Framkvæmdastjóri Viator er þeirrar skoðunar að komugjaldsleiðin sé einfaldasta, ódýrasta og skilvirkasta leiðin til að afla tekna til handa náttúruverndar. „Hún er mjög vel fær, krefst lítils undirbúnings, er fullkomlega lögleg og brýtur engar alþjóðlegar skuldbindingar, þvert ofan í það sem haldið hefur verið fram. Með þessari áskorun erum við að minna stjórn SAF á að standa vörð um hagsmuni félagsmanna, geri hún það ekki er hætta á að hún missi traust sinna eigin félaga og samtökin klofni eða liðist í sundur.“