Fjögur hundruð fleiri gengu úr Þjóðkirkjunni en í hana á tímabilinu frá byrjun apríl til loka júní 2015, samkvæmt tölum Þjóðskrár Íslands yfir breytingar á trú- og lífsskoðunarfélagsaðild á 2. ársfjórðungi. Alls yfirgáfu 598 manns Þjóðkirkjuna á tímabilinu og 158 gengu í kirkjuna. Af þeim sem gengu úr kirkjunni þá skráðu 124 sig í fríkirkju, 122 í önnur skráð trúfélög, 27 í lífsskoðunarfélög, 306 standa eftir breytingu utan trúfélaga og í 19 tilvikum er skráningin í ótilgreint trúfélag. Á fyrstu sex mánuðum ársins gengu 1.357 fleiri úr Þjóðkirkjunni en í hana. Á því tímabili, frá áramótum til 30. júní, gengu 1.706 einstaklingar úr Þjóðkirkjunni og 309 í hana.
Í Fríkirkjurnar þrjár, það eru Fríkirkjuna í Reykjavík, Óháða söfnuðinn í Reykjavík og Fríkirkjuna í Hafnarfirði, gengu 89 fleiri en úr þeim á 2. ársfjórðungi. Fjöldi þeirra sem gekk í önnur trúfélög var 221 fleiri en gengu úr þeim. Í lífsskoðunarfélagið Siðmennt gengu 43 fleiri en úr því. Nýskráðir utan félaga voru 275 fleiri en gengu í félög eftir að hafa verið utan félaga og í ótilgreint trúfélag voru 188 færri skráðir en fluttust úr þeim flokki.
Myndin hér að neðan sýnir fjölda þeirra sem gengu í trú og lífsskoðunarfélög annars vegar (bláu súlurnar) og fjölda þeirra sem gengu úr félögum hins vegar (grænu súlurnar) á fyrri helmingi þessa árs.
Í frétt Þjóðskrár er bent á að þann 13. febrúar síðastliðinn tóku gildi breytingar á lögum um skráð trúfélög sem miða að því að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga á við stöðu skráðra trúfélaga. „Verklag við skráningu á trú- og lífskoðunarfélagsaðild var breytt í kjölfar gildistöku lagabreytinganna sem m.a. hafði þau áhrif að einstaklingum með stöðuna ótilgreint trú- eða lífsskoðunarfélag hefur fjölgað. Meginbreytingin var að börn eru nú skráð í ótilgreint trúfélag við fæðingu ef foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá eru í sitthvoru trú- eða lífskoðunarfélaginu. Jafnframt er skráning erlends ríkisborgara úr stöðunni ótilgreint í tiltekið trú- eða lífsskoðunarfélag á grundvelli tilkynningar frá honum nú talin til breytinga,“ segir í frétt Þjóðskrár.