Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi stýrivaxtaákvörðunar í dag að útboð aflandskróna sé handan við hornið. Það verði ekki í október, en áður höfðu haustmánuðirnir október eða nóvember verið nefndir líklegar tímasetningar, en eins og staðan sé núna þá verði útboðið haldið rétt fyrir eða eftir áramót. Már sagði að mikil vinna hafi átt sér stað við undirbúning, meðal annars í samráði við erlenda ráðgjafa. „Ég held þeir séu í bankanum í dag,“ sagði Már á fundinum.
Útboð aflandskróna er einn stórra þátta í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Áætlunin var kynnt í júní síðastliðnum. Már sagði raunveruleikann oft reynast flóknari en áætlanir geri ráð fyrir og því geti hann ekki gefið nákvæmari dagsetningu útboðsins.
Annar stór þáttur í losunaráætlun stjórnvalda er uppgjör slitabúanna. Báðir þættir munu hafa mikil áhrif á hagstærðir í banka- og efnahagskerfinu, þar á meðal lausafjárstöðu bankanna. Á fundinum í morgun sagði Már það skynsamlegt að láta þessa tvo viðburði ekki gerast samtímis. „Þótt við getum reiknað út áhrif aðgerðanna á kerfið í heild þá er ekki alveg ljóst hvernig það fellur á einstakar stofnanir. Það geta verið rök fyrir því að hafa meira bil á milli þerra,“ sagði Már og tók fram að á næstu vikum muni bankarnir vita nánar hver áhrif aðgeranna verða. Gefa verði bönkunum svigrúm til að undirbúa sig. „Það er mikilvægt að þetta verði eins lítið högg og hægt er. Við vitum að báðar aðgerðir eru hagstæðar fyrir þjóðarbúið en það þarf að huga að áhrifum á starfandi banka.“
Einn liður í undirbúningi fyrir þessar aðgerðir, þ.e. aflandskrónuútboð og uppgjör slitabúanna, er hækkun bindiskyldu úr tveimur prósentum í fjögur prósent. Peningastefnunefnd tilkynnti um hækkun bindiskyldunnar í morgun, þegar hún tilkynnti um óbreytta stýrivexti.
Á fundinum sagði Már að breyting á bindiskyldu væri tímabundin aðgerð hluti af losunaráætluninni. Breytingin væri ekki gerð til að auka aðhald peningastefnunnar, þótt áhrif hækkunarinnar liggi ekki nákvæmlega fyrir hvað það varðar. „Við getum ekki verið viss um að áhrifin séu hlutlaus, en þau ættu í öllu falli ekki að vera mikil,“ sagði Már.