Seðlabankastjórum Seðlabanka Íslands verður fjölgað úr einum í þrjá og staða aðstoðarseðlabankastjóra verður lögð niður. Einn stjóranna verður aðalseðlabankastjóri. Ekki verður upplýst opinberlega um hverjir sækja um stöðu seðlabankastjóranna. Þetta er á meðal tillagna sem nefnd um heildarendurskoðun laga um Seðlabanka Íslands leggur til í skýrslu sem hún hefur skilað til Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra. Frá þessu er greint í DV í dag.
Ekki stendur til að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið, samkvæmt tillögunum.
Þrír metnir hæfastir síðast
Már Guðmundsson var endurskipaður seðlabankastjóri í fyrrasumar. Hann hefur látið í það skína að mögulega sitji hann ekki út allan skipunartíma sinn. Már og Friðrik Már Baldursson og Ragnar Árnason voru metnir hæfastir umsækjenda. Um embættið sóttu auk þeirra þau Ásgeir Brynjar Torfason, Haukur Jóhannsson, Íris Arnlaugsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Sandra María Sigurðardóttir, Yngvi Örn Kristinsson og Þorsteinn Þorgeirsson. Umsóknarfrestur um stöðuna rann út 27. júní síðastliðinn. Eftir fyrstu yfirferð var það mat hæfisnefndarinnar að þrír umsækjendur, þau Haukur , Íris og Sandra María, uppfylltu ekki hæfiskröfur sem gerðar voru til umsækjenda.
Í hæfisnefndina voru skipuð Guðmundur Magnússon, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, Ólöf Nordal, fyrrverandi varaformaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi formaður bankaráðs Seðlabankans, og Stefán Eiríksson lögfræðingur sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Stefán og Guðmundur önnuðust viðtöl við umsækjendur. Ólöf Nordal kom að allri málsmeðferð nefndarinnar fram til 14. júlí, þar á meðal gerð umsagnarinnar og undirbúningi viðtala. Hún kom hins vegar ekki að lokagerð umsagnarinnar vegna forfalla.