Sérstakur saksóknari gerði ekki athugasemd við að sú háttsemi sem Seðlabanki Íslands kærði í Samherja-málinu svokallaða geti talist brotleg við lög. Hins vegar var það erfitt að mati embættisins að heimfæra sakarefnin með óyggjandi hætti upp á einstaka fyrirmenn.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Seðlabanka Íslands, en greint var frá því síðasta föstudag að sérstakur saksóknari hafi fallið frá málsókn vegna meintra gjaldeyrisbrota Samherja og tengdra félaga. Á fjórða ár er liðið frá því húsleit var gerð í höfuðstöðvum Samherja vegna málsins. Seðlabankinn kærði málið tvívegis til sérstaks saksóknara.
Í yfirlýsingu á vef Seðlabankans segir að vegna mistaka sem gerð voru þegar fjármagnshöft voru sett á Íslandi í nóvember 2008 þá hafi ekki verið hægt að kæra lögaðila vegna brota á lögunum. Þetta hafi alla tíð haft áhrif á málið. „Þá er að mati embættisins ekki hægt að sakfella vegna meintra brota sem urðu á tímabilinu 15. desember 2008 til 31. október 2009 sakir þess að samþykki viðskiptaráðherra við útgáfu reglna nr. 1130/2008 um gjaldeyrismál sem settar voru í desember 2008 var ekki tryggt með viðunandi hætti. Taldi embættið því ekki líklegt að saksókn myndi leiða til sakfellingar stjórnenda félaganna og því rétt að endursenda málið til Seðlabanka Íslands til meðferðar og ákvörðunar um hvort ætluð brot í málinu gefi tilefni til beitingu stjórnsýsluviðurlaga,“ segir Seðlabankinn og tekur fram að ágalli við lagasetningu standi ekki í vegi fyrir að bankinn beiti lögaðila stjórnvaldssektum.
Í yfirlýsingunni segir að nú verði farið yfir niðurstöðu embættis sérstaks saksóknara, áður en ákvörðun verður tekin um framhaldið. Eftir sem áður muni Seðlabankinn „sem endranær framfyglja lögum um gjaldeyrismál af staðfestu, samviskusemi og sanngirni, eins og lagaskylda hans býður“.
Gagnrýnir svörin harðlega
Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um yfirlýsingu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, þar sem hann gagnrýnir yfirlýsingu Seðlabankans harðlega. Hann segir bankann hafa sent frá sér tilhæfulausar kærur, eins og sérstakur saksóknari hafi komist tvívegis að, og að tilkynning bankans sé enn ein tilraun bankans til að breiða yfir eigin rangfærslur og mistök og afvegaleiða umræðuna.
„Eftir mikla og nákvæma rannsókn sérstaks saksóknara var niðurstaðan skýr: Ekkert kom fram við rannsókn málsins sem benti til saknæmrar háttsemi minnar eða annarra einstaklinga. Byggði niðurfelling málsins eingöngu á þeirri niðurstöðu embættisins og hefur ekkert að gera með skýrleika laga líkt og bankinn heldur fram,“ segir Þorsteinn. Þá segir hann málatilbúnað Seðlabankans hafa verið tilhæfulausan frá upphafi. Niðurstaða sérstaks saksóknara staðfesti það einfaldlega.