Seðlabanki Íslands hefur frestað útkomu Fjármálastöðugleika-skýrslu sinnar, sem kynna átti klukkan tíu í dag. Ástæðan er sú að tímasetningin reyndist "óheppileg í ljósi þess að ekki hefur tekist að ljúka því samráðs- og kynningarferli sem reiknað var með að yrði lokið áður en ritið yrði birt." Þetta kemur fram í stuttri tilkynningu frá Seðlabankanum. Útgáfu ritsins hefur verið frestað um "nokkra daga".
Á meðal þess sem kynnt verður í ritinu er viðauki um þau stöðugleikaskilyrði sem slitabú föllnu bankanna þurfa að greiða til að komast hjá 39 prósent stöðugleikaskatti og um nauðasamninga þeirra. Á kynningafundi vegna útkomu ritstins átti að opinbera mat á tillögum um aðgerðir og greiðslu stöðugleikaframlags sem uppfylla ætti stt stöðugleikaskilyrði stjórnvalda.
Fulltrúar Seðlabankans sáu sér ekki fært að mæta á fund efnahags- og viðskiptanefndar í gær til að fara stöðugleikaskilyrðin og hvernig slitabúunum gengi að mæta þeim þar sem þeir vildu ekki upplýsa um stöðu þess áður en að Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, yrði kynnt sú niðurstaða. Það vakti hins vegar athygli að Már Guðmundsson seðlabankastjóri fundaði með InDedence-hópnum í síðustu viku, en hópurinn hafði krafist þess að Seðlabankinn birti samstundis öll stöðugleikaskilyrðin sem slitabú Glitnis, Kaupþings og Landsbankans þurfa að mæta til að sleppa við stöðugleikaskattinn.
Alls munu kröfuhafar slitabúanna greiða um 334 milljarða króna í stöðugleikaframlag til ríkissjóðs gangi áform um nauðasamninga þeirra eftir. Glitnir mun að öllum líkindum greiða um 200 milljarða króna, Kaupþing um 120 milljarða króna og Landsbankinn um 14 milljarða króna. Tölurnar gætu sveiflast til eftir því hvernig gengur að selja stærstu innlendu eignir Glitnis og Kaupþings: Íslandsbanka og Arion banka.