Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að fyrirframgreiða allt að 50 milljarða króna af lánum sem hann fékk hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) í tengslum við efnahagsáætlun stjíornvalda. Stjórnvöld hafa nú endurgreitt 83 prósent af láninu. Lánin sem greidd voru upphaflega á gjalddaga á árinu 2015. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabankanum sem birtist á vef hans í morgun.
Alls fengu íslensk stjórnvöld 253 milljarða að láni frá AGS í tengslum við áætlunina. Eftir fyrirframgreiðsluna sem tilkynnt var um í morgun eru eftirstöðvar lánsins um 43 milljarðar króna.
Í tilkynningu Seðlabankans segir: „Ákvörðunin um fyrirframgreiðslu er tekin í tengslum við skuldastýringu sem miðar að því að greiða niður lán til skemmri tíma. Við ákvörðunina er tekið mið af tiltölulega rúmri lausafjárstöðu Seðlabanka Íslands, meðal annars vegna inngripa á innlendum gjaldeyrismarkaði. Endurgreiðslan hefur áhrif á skuldir Seðlabanka Íslands en ekki á skuldir ríkissjóðs vegna þess að AGS-lánið var tekið af Seðlabankanum. Gjaldeyrisforði Seðlabankans dregst saman sem nemur þessari fjárhæð. Stærð forðans í lok nóvember nam um 566 ma.kr.“.