Seðlabankanki Íslands hafði ekki skýra lagaheimild til að flytja verkefni við umsýslu og sölu eigna til einkahlutafélags í eigu bankans. Umrætt einkahlutafélag, Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ), hefur fengið til sín allar þær eignir og kröfur sem Seðlabankanum hefur áskotnast vegna hrunsins. Um er að ræða eignir, meðal annars hlutir í fyrirtækjum og fasteignir, og kröfur upp á hundruði milljarða króna. ESÍ hefur á undanförnum árum selt margar þeirra eigna sem félaginu áskotnaðist.
Í bréfi sem umboðsmaður Alþingis sendi fjármála- og efnahagsráðherra, bankaráði Seðlabanka Íslands, seðlabankastjóra og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í síðustu viku, vegna athugunar sem hann hefur unnið á síðustu árum vegna atriða tengdum athugunum og rannsóknum Seðlabanka Íslands um ætluð brot á reglum um gjaldeyrishöft, er fjallað sérstaklega um flutning verkefna Seðlabankans á við umsýslu og sölu eigna til ESÍ.
Tilefni þessarrar athugunar umboðsmanns voru meðal annars ábendingar um að þeir sem komið hefðu fram fyrir hönd bankans og ESÍ "hefðu gert það með áþekkum hætti og um væri að ræða einkaaðila en ekki ríkisstofnun. "Er það afstaða umboðsmanns að skýringar bankans um lagaheimild til flutnings verkefnanna hafi ekki verið fullnægjandi. Umboðsmaður leggur áherslu á að auk þess sem fullnægjandi lagaheimild þurfi að vera fyrir hendi til slíks flutnings opinberra verkefna frá ríkisstofnun sé líka mikilvægt að þeir starfsmenn sem fjalli um þessi mál, viðsemjendur um þessar eignir og kröfur og almennir borgarar séu ekki í vafa um eftir hvaða reglum, svo sem um meðferð valds og upplýsinga, hæfi og málsmeðferð að öðru leyti, eigi að fara í þessum tilvikum."
"Ruslakista" troðfull af hruneignum
ESÍ hefur leikið stórt hlutverk í uppgjöri Seðlabanka Íslands við bankahrunið undanfarin ár. Inn í félagið, og dótturfélag þess Hildu, hefur þeim fullnustueignum og uppgjörssamningum sem Seðlabankinn hefur leyst til sín verið hrúgað. Á meðal þeirra eigna sem ESÍ heldur á eru allar kröfur Seðlabankans á Glitni, Kaupþing og Landsbankann. Félagið er því langstærsti innlendri kröfuhafi þeirra slitabúa, sem nú er stefnt að því að gera upp á næstu mánuðum. Það er oft kallað "ruslakista" Seðlabankans í hálfkæringi á meðal manna í viðskiptalífinu.
Í lok árs 2012 átti ESÍ bókfærðar eignir upp á 326 milljarða króna. Stjórnendur félagsins hafa verið duglegir við að selja eignir undanfarin ár og um síðustu áramót voru eignir þess metnar á 209 milljarða króna. Í ágúst auglýsti ESÍ dótturfélagið Hildu til sölu. Það félag á 364 fasteignir sem metnar eru á 6,6 milljarða króna, 387 útlán (til 260 lántakenda) og önnur skuldabréf sem metin eru á 5,7 milljarða króna og handbært fé/kröfur upp á 2,9 milljarða króna. Hilda á alls sex dótturfélög og hjá félaginu starfa 13 manns. Það hagnaðist um 1,5 milljarð króna á fyrstu sex mánuðum ársins og munaði þar langmestu um hreinar rekstrartekjur, sem eru sala eigna og lána á tímabilinu. Auk þess námu leigutekjur 139 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins.