Seðlabanki Íslands hefur fært niður spár sínar um hagvöxt á næstu árum og spáir því nú að hagvöxtur í ár verði 4,2 prósent, eða um hálfu prósenti minna en bankinn spáði í síðustu útgáfu Peningamála, ársfjórðungslegu riti bankans. Þá spáir bankinn því að hagvöxtur á næstu tveimur árum, 2016 og 2017, verði þrjú prósent á ári. Áður var spáð 3,5 prósent hagvexti næstu tvö ár. Bráðabirgðatölur Hagstofunnar benda til að hagvöxtur á fyrri helmingi árs 2015 hafi verið 2,9 prósent.
Seðlabankinn segir samsetningu hagvaxtar hafa breyst og sé nú í enn meiri mæli drifinn áfram af innlendri eftirspurn, einkum einkaneyslu.
Meginskýring breyttra efnahagshorfa er sögð nýgerðir kjarasamningar sem fela í sér verulega launahækkanir í ár og á næstu tveimur árum. „Eins og rakið var í fráviksdæmi í maíhefti Peningamála munu svo miklar launahækkanir óhjákvæmilega hafa í för með sér aukið aðhald peningastefnunnar sem draga mun úr fjárfestingu og vinnuaflseftirspurn. Því er einnig gert ráð fyrir hægari fjölgun heildarvinnustunda og meira atvinnuleysi á spátímanum en spáð var í maí. Samningarnir fela í sér að launakostnaður á framleidda einingu hækkar um 9% í ár og rúmlega 7% á ári að meðaltali á spátímanum sem eru töluvert meiri hækkanir en gert var ráð fyrir í maíspánni. Á móti vegur að gert er ráð fyrir minni hækkun innflutningsverðlags á spátímanum en spáð var í maí, ekki síst vegna mikillar lækkunar alþjóðlegs olíuverðs síðustu vikur,“ segir Seðlabankinn.
„Verðbólguhorfur versna þó verulega frá því sem gert var ráð fyrir í maí. Samkvæmt endurskoðaðri spá verður verðbólga komin í ríflega 4% snemma á næsta ári og verður á bilinu 4-4½% á næstu tveimur árum áður en hún tekur að hjaðna á ný í átt að verðbólgumarkmiðinu er líða tekur á spá- tímann. Nokkur óvissa er varðandi hugsanleg frávik verðbólgu frá ofangreindri spá. Það stafar aðallega annars vegar af óvissu um í hve ríkum mæli launahækkunum verður velt út í verðlag eða þeim mætt með aukinni hagræðingu og því veikara atvinnustigi og hins vegar af óvissu um alþjóðlega verðþróun og áframhald viðskiptakjarabata.“
Peningamál, efnahagsspá Seðlabankans, í heild.