„Frágangur lánsins til Kaupþings var einnig óvenjulegur þar sem Seðlabanki Íslands millifærði einfaldlega 500 milljónir evra til Kaupþings mánudaginn 6. október eftir samtal um lánveitinguna milli mín og Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans. Engin lánaskjöl voru undirrituð og Seðlabankinn gekk ekki frá veðsetningu FIH bankans til sín.“ Þetta segir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í morgun.
Kjarninn greindi frá því nýverið að tæpur helmingur umrædds láns, um 35 milljarðar króna, sé tapaður. Árni Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, lýsti lánveitingunni þannig í bók sinni um bankahrunið og afleiðingar þess að Seðlabankinn hafi „látið Kaupþing hafa allan gjaldeyrisforðann sem þeir voru með hér heima þannig að það voru engir peningar eftir í Seðlabankanum“.
Seðlabankinn lánaði því „allan gjaldeyrisvaraforðann sem þeir voru með hér heima“ án þess að gera lánasamninga né taka veð. Kaupþing hefði því ekki þurft að láta FIH bankann af hendi sem veð fyrir láninu, frekar en bankinn vildi.
Seðlabankinn fór hins vegar fram á það við Kaupþing nokkrum dögum síðar að gengið yrði frá lánaskjölunum og veðsetningu FIH bankans. Hreiðar Már segir að stjórnendur Kaupþings hafi orðið við því, en þá „var búið að millifæra lánsfjárhæðina í heild sinni“.
Hafnar óeðlilegri ráðstöfun lánsins
Embætti sérstaks saksóknara og yfivöld í Lúxemborg hafa verið með Hreiðar Má, og fleiri stjórnendur Kaupþings, til rannsóknar vegna þess hvernig þau telja þá hafa ráðstafað hluta af neyðarláninu frá Seðlabankanum. Um er að ræða hið svokallaða Lindor-mál. þar sem grunur er um að féð frá Seðlabankanum hafi verið notað til að kaupa skuldabréf af starfsmönnum Kaupþings í Lúxemborg, bankanum sjálfum og vildarviðskiptavinum.
Hreiðar Már neitar því staðfastlega í greininni að láninu hafi verið ráðstafað með þessum hætti. „Ekkert af fjármagninu sem Kaupþing fékk frá Seðlabanka Íslands var notað til kaupa á eigin skuldabréfum Kaupþings eins og haldið hefur verið fram. Allt fjármagnið var nýtt til að tryggja aðgang viðskiptavina bankans í fjölmörgum löndum Evrópu að bankainnistæðum sínum, tryggja aðgang dótturbanka Kaupþings í Evrópu að lausafé og mæta veðköllum bankans vegna fjármögnunar hans og viðskiptavina hans á verðbréfum hjá alþjóðlegum bönkum í Evrópu. Með öðrum orðum þá var allt féð notað til að tryggja sem frekast var kostur rekstur og hag Kaupþings og viðskiptavina bankans.“
Neyðarlögin kynnt í ríkisstjórn fyrir lánveitingu
Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að lánið ákvörðun um lánveitinguna hafi verið tekin á hádegi þann 6. október.
Síðar saman dag, eftir lokun markaða, flutti Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, sjónvarpsávarp þar sem hann tilkynnti um setningu neyðarlaga. Inntak þeirra var meðal annars það að innstæður nutu forgangs í kröfuhafaröð.
Hreiðar Már segir í grein sinni að stjórnendur Kaupþings hefðu talið að 500 milljón evra lánið frá Seðlabankanum hefði verið nægilega stór fyrirgreiðsla til að gera Kaupþnigi kleift að standa að sér ástandið sem geisaði á fjármálamarkaði á þessum tíma. Í grein hans stendur: „Það sem við vissum ekki þá var að ríkisstjórn Íslands myndi síðar þann dag beita sér fyrir samþykkt neyðarlaga á Alþingi Íslendinga. Neyðarlögin, sem settu innistæðueigendur fram fyrir aðra kröfuhafa, kipptu fótunum endanlega undan rekstri alþjóðlegra banka á Íslandi og eftir að þau voru samþykkt seint um kvöldið er óumdeilt að mínu viti að ekki var lengur raunhæft að reka alþjóðlegan banka, sem sótti fjármögnun sína til alþjóðlegra markaða, frá Íslandi. Ég held að við öll getum verið sammála um að slíkur banki á ekki raunhæfa möguleika.“
Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis kemur skýrt fram að vinna við neyðarlögin var hafin þegar lánið til Kaupþings var veitt og frumvarp þess efnis var kynnt á ríkisstjórnarfundi að morgni 6. október. Sá fundur hófst 8:30, mörgum klukkutímum áður en lánið til Kaupþings var veitt, upphaflega án veða og lánasamninga. Því voru lögin, sem fyrrum forstjóri Kaupþings telur hafa gert það óraunhæft með öllu að reka alþjóðlegan banka á Íslandi, ákveðin og setning þeirra í undirbúningi þegar Seðlabankinn ákvað að lána alþjóðlega bankanum Kaupþingi allan innlendan gjaldeyrisforða sinn.