Fulltrúar Seðlabankans tilgreindu það sérstaklega á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í gær að ástæða þess að verið væri að gera breytingar á gjaldeyrislögum með afbrigðum á sunnudegi væri leki á upplýsingum um haftaáætlun stjórnvalda, sem hafi birst sem frétt í DV á föstudag. Lekin hafi leitt til skjálfta í kerfinu og Seðlabankinn hafi fundið aukin þrýsting um að hjáleiðir til að reyna að sleppa út með fjármuni áður en áætluninni yrði hrint í framkvæmd væru í undirbúningi. Þetta kom fram í ræðu Steingríms J, Sigússonar, þingmanns Vinstri grænna og sem situr í efnahags- og viðskiptanefnd, þegar breytingar á lögum um gjaldeyrismál, sem ætlað er að stoppa upp í ýmis göt í höftunum, voru samþykkt í gærkvöldi. „Þarna á sér stað hættulegur, raunverulegur og skaðlegur leki,“ sagði Steingrímur.
Í DV á föstudag kom fram að til stæði að gefa slitabúum föllnu bankanna nokkrar vikur til að mæta skilyrðum stjórnvalda til að leyfa þeim að klára nauðasamninga sína. Skilyrðin eru sett til að vernda greiðslujöfnuð og þýða að búin þurfa að gefa eftir miklar krónueignir, sem að sögn DV eiga að vera allt að 500 milljarðar króna. Takist ekki að semja við búin á þessum vikum verður lagður á þau svokallaður stöðugleikaskattur, sem DV sagði að yrði 40 prósent.
Samband forsætisráðherra og DV hefur verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur í kjölfar tilraunar til að fjárkúga ráðherrann. Í bréfi sem fjárkúgararnir sendu á Sigmund Davíð kom fram, að sögn Vísis, að upplýsingum um að hann hefði beitt sér fyrir fjárhagslegri fyrirgreiðslu fyrir Björn Inga Hrafnsson, aðaleiganda DV yrðu gerðar opinberar ef hann myndi ekki greiða systrunum Hlín Einarsdóttur og Malín Brand nokkrar milljónir króna.
Bað forsætisráðherra um afsökunarbeiðni
Steingrímur benti í ræðu sinni á að ekki gæti það hafa verið stjórnarandstaðan sem hafi lekið upplýsingunum, enda hefði samráðshópur um losun hafta ekki verið kallaður saman í sex vikur. Stjórnarandstaðan hefði því engar upplýsingar um málið til að leka. Hún læsi bara um það í DV eins og aðrir.
Í apríl sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á þingi að fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna hafi verið haldið upplýstum um gang mála varðandi vinnu við afnám hafta í gegnum pólitísku samráðsnefnd, en að trúnaðarbrestur hafi orðið eftir fund samráðsnefndarinnar í desember og í kjölfarið hafi upplýsingagjöf verið breytt. Nefndi hann sérstaklega Árna Pál Árnason, formanns Samfylkingarinnar, í þeim efnum. Þau ummæli vöktu mikla reiði stjórnarandstöðuþingmanna.
Steingrímur rifjaði þessi ummæli upp í ræðu sinni í gærkvöldi og sagðist telja að forsætisráðherra væri maður að meiri ef hann myndi biðja stjórnarandstöðuna afsökunar á þeim ósæmilegu ásökunum sem hann hafði uppi í garð hennar um leka. Sérstaklega í ljósi þess leka sem hafi orðið til DV á föstudag. Steingrímur bað Sigmund Davíð einnig um að útskýra hvernig svona leki gæti átt sér stað, beint í gegnum nafngreindan blaðamann. Þar átti Steingrímur við Hörð Ægisson, viðskiptaritstjóra DV, sem hefur skrifað fjölmargar fréttir undanfarin misseri sem byggja á trúnaðarupplýsingum úr haftalosunarstarfinu.
Sigmundur Davíð ákvað að svara ekki ræðu Steingríms.
Breytingar á lögum um gjaldeyrismál voru samþykktar í þverpólitískri sátt.