Seðlabanki Íslands segir það ekki rétt að gengið hafi verið frá veðsetningu vegna 500 milljóna evra neyðarláns til Kaupþings, sem veitt var 6. október 2008, fyrr en mörgum dögum síðar. Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, hélt þvi fram í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag að engin lánaskjöl hafi verið undirrituð þegar lánið var veitt og að veðsetning hins danska FIH banka hafi ekki farið fram fyrr en nokkrum dögum síðar. Þá hafi Seðlabankinn verið búinn að millifæra lánsfjárhæðina í heild sinni.
Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri Seðlabankans, segir frásögn Hreiðars Más vera ranga. „Starfsmenn Seðlabanka Íslands gengu strax í að fullvissa sig um að veðið fyrir láninu til Kaupþings stæði til reiðu og lögmaður Kaupþings gerði hluthafaskrá í Danmörku strax viðvart um að Seðlabankinn væri að taka veð í öllum hlutum FIH-bankans. Veðgerningurinn var fullkláraður fyrir lok viðskiptadags og réttarvernd veðsins hafði þá verið að fullu tryggð. Stjórnendur Kaupþings undirrituðu gerninginn fyrir lok viðskiptadags 6. október. Þannig að fullyrðingar um að ekki hafi verið gengið frá veðsetningu fyrr en mörgum dögum seinna eru rangar,“ segir Stefán.