Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ) hefur ákveðið að bjóða til sölu allt að 23,7 milljónir hluta í Nýherja hf. sem samsvarar 5,8 prósent útgefinna hluta í félaginu. Gengi bréfa í Nýherja stendur í 10,35 krónum á hlut og er hluturinn því að andvirði um 245,5 milljóna króna, miðað við markaðsvirði.
Salan mun fara fram í útboði án útgáfulýsingar í samræmi við undanþáguheimild í lögum verðbréfaviðskipti, en MP banka annast söluna, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallar Íslands.
Tilboð þurfa uppfylla þrjú skilyrði: Tilboðsgjafar þurfa í fyrsta lagi að lágmarki bjóða í 500.000 hluti að nafnverði í Nýherja hf. Þá þurfa greiðsluskilmálar að vera hefðbundnir, viðskiptadagur verður 18. júní 2015 og uppgjörsdagur 22. júní 2015. Að lokum skal tilboð undirritað og sent til verðbréfamiðlunar MP banka hf. með tölvupósti fyrir klukkan 16:00 þann 18. júní 2015.
Öll samþykkt tilboð miðast við það gengi sem tilboðsgjafi leggur inn. Tilboðum em uppfylla ekki framangreind skilyrði verður hafnað. Eignasafn Seðlabankans áskilur sér allan rétt til að hafna öllum tilboðum sem berast.
Markaðsvirði Nýherja hefur aukist nokkuð að undanförnu, og hefur gengið hækkað úr rúmlega fimm í byrjun ársins, í 10,35 um þessar mundir.
Stjórn Nýherja ákvað á dögunum að setja 25 prósent eignarhlut í dótturfyrirtækinu TEMPO ehf. í söluferli. Félagið hefur ráðið Icora Partners sem umsjónaraðila, með lokuðu útboði. Þess er vænst að söluferlið muni hefjast á þriðja ársfjórðungi 2015.
Markmiðið með útboðinu er að styðja enn frekar við hraðan vöxt TEMPO ehf., með auknu fjármagni og sérþekkingu, sem mun nýtast annars vegar til að hraða vöruþróun og hins vegar til að auka markaðsstarf og styrkja uppbyggingu TEMPO vörumerkisins erlendis.