Vegna ört hækkandi fasteignaverðs, sem vigtað hefur í vaxandi verðbólgu, hefur fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands ákveðið að setja reglur um hámark greiðslubyrðar á fasteignalánum.
Í yfirlýsingu nefndarinnar, sem birt var í morgun, segir að greiðslubyrðarhlutfall – mánaðarleg greiðslubyrði fasteignalána á móti mánaðarlegum ráðstöfunartekjum lántaka – fasteignalána skuli almennt takmarkast við 35 prósent en 40 prósent fyrir fyrstu kaupendur. Lánveitendum er veitt undanþága frá reglunum fyrir allt að fimm prósent heildarfjárhæðar nýrra fasteignalána sem veitt er í hverjum ársfjórðungi.
Þessar aðgerðir eru í takti við það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mælti með að yrði gert hérlendis í áliti sem hann birti í apríl. Þar sagði hann að bregðast ætti við verðhækkunum á húsnæðismarkaði og vaxandi hluta íbúðalána hjá bönkum með beitingu þjóðhagsvarúðartækja, til dæmis með reglum um hámark lánagreiðslna sem hlutfall af tekjum lántakenda eða hámarkshlut lánanna í eignasafni bankanna.
Í júní var hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda lækkað úr 85 í 80 prósent en hámarkshlutfall fyrir fyrstu kaupendur hélst óbreytt í 90 prósent.
Sveiflujöfnunaraukinn snýr aftur
Þá hefur fjármálastöðugleikanefndin ákveðið að endurvekja hinn svokallaða sveiflujöfnunarauka sem var afnuminn í fyrravor til að auka þrótt kerfislega mikilvægu bankanna þriggja til að lána heimilum og fyrirtækjum.
Sveiflujöfnunarauki Seðlabankans eru viðbótarkröfur á eigið fé fjármálafyrirtækja umfram lögbundnar eiginfjárkröfur til að sporna gegn miklum sveiflum í fjármálakerfinu. Ef mikil hætta er á þenslu getur Seðlabankinn hækkað aukann til að koma í veg fyrir of mikinn útlánavöxt, en ef hætta er á samdrætti getur bankinn lækkað aukann til að efla útlánagetu fjármálafyrirtækjanna.
Þegar sveiflujöfnunaraukinn var afnumin í mars í fyrra var það gert til að auka þrótt efnahagslífsins til að takast á við afleiðingar kórónuveirufaraldursins með því að skapa svigrúm til nýrra útlána sem átti að nema allt að 350 milljörðum króna. Þorri þessa svigrúms hefur verið nýtt í að lána til húsnæðiskaupa.