Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir að búast megi við að næstu skref við afnám fjármagnshafta verði stigin síðar í mánuðinum. Þetta kom fram í máli ráðherrans í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. „Menn munu sjá held ég einhverja hreyfingu á þessu, þegar í þessum mánuði,“ sagði Sigmundur Davíð í útvarpsþættinum.
Forsætisráðherra er bjartsýnn á að það muni ganga vel að vinda ofan af fjármagnshöftunum, sem hafa verið við lýði hér á landi nánast frá bankahruni, og þakkar það mikilli og góðri undirbúningsvinnu. „En menn verða að hafa það hugfast að eftirstöðvarnar af bankahruninu eru enn þá að miklu leyti til staðar og það er ekkert annað en eðlilegt að þessi fyrirtæki, eða slitabúin, leggi sitt af mörkum, eins og þau voru reyndar byrjuð að gera núna með sérstakri skattlagningu, til uppbyggingar í samfélaginu.“
Sigmundur Davíð segir að í öðrum löndum hafi stjórnvöld farið þá leið að skattleggja fjármálafyrirtækin eða sekta þau, oft með gríðarlega háum sektum, til að láta þau bæta samfélögum þann skaða sem starfsemi þeirra hafi valdið. „Svoleiðis að það er nú ýmislegt sem væri mjög réttlætanlegt í þessu, og sama hvaða leið verður farin þá verður hún allavega til þess hönnuð að tryggja að það lendi ekki meira fjárhagslegt tjón á almenningi, þvert á móti að þetta lokauppgjör á bankahruninu verði til þess fallið að ná til baka einhverjum af þeim skaða sem orðið hefur.“
Að lokum sagði forsætisráðherra varðandi fjármagnshöftin: „Sú leið sem verður farin á að vera annars vegar til þess fallin að gera okkur kleyft að fara að aflétta höftum og hins vegar, sem er beintengt hinu, hún verður að vera til þess fallin að skapist þetta margumrædda svigrúm sem rætt var mikið hér í aðdraganda síðustu kosninga, enda er það forsenda þess að það verði hægt að slaka á höftunum.“