Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, segir að stjórnvöld verði að sýna frumkvæði og undirbúa þjóðina fyrir líf eftir afnám fjármagnshafta. Þjóðin verði að vera með í afnáminu og mikilvægt sé að umræðan fari fram fyrir opnum tjöldum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Þar er haft eftir Ásgeiri að ekki sé hægt að afnema höft "nema sleppa krónunni frjálsri og þá mun hún hækka eða lækka, sem getur orsakað verðbólgu. Það þarf ekki mikið gengisfall til að ýta mörgum íslenskum heimilum út í neikvæða eiginfjárstöðu. Meginhluti af lánum heimilanna er verðtryggður og gengislán og verðtryggt lán er nokkurn veginn sama lánið. Það þarf að undirbúa almenning fyrir þetta og undirbúa stofnanakerfið þannig að þetta sé einfaldlega pólitískt mögulegt."
Ásgeir telur að ekki sé mikið að gerast í afnámi hafta og að engar tillögur hafi verið settar fram frá því að Aljþóðagjaldeyrissjóðurinn hvarf frá Íslandi. "Það eru sex ár frá hruninu. Sú afsökun að við séum að setja höft út af fjármálaáfalli er ekki lengur fyrir hendi. Það er talað um að afnema höftin, en ekkert í okkar gerðum bendir til þess að það sé að fara að gerast," segir Ásgeir.
Góðar ytri aðstæður til haftaafnáms
Í hádeginu í gær stóðu stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi fyrir fundið um afnám hafta. Ásgeir var frummælandi á fundinum ásamt Sigríði Benediktsdóttur, hagfræðingi hjá Seðlabankanum, og Ólafi Darra Ólafssyni, hagfræðingi hjá ASÍ. Í máli þeirra allra kom fram að ytri aðstæður fyrir losun hafta væru góðar um þessa mundir. Litlir hvatar væru fyrir fjárfesta að færa fjárfestingar sinnar til annarra landa þar sem t.d. ávöxtun á sumum flokkum ríkisskuldabréfa er neikvæð.
Aðstæður í íslensku hagkerfi hafa einnig á margan hátt verið góðar undanfarin ár fyrir skref í átt að losun hafta. Verðbólga hefur til að mynda verið mjög lág um nokkurt skeið og stöðugleiki ríkt. Höftin spila þar stórt hlutverk enda verja þau t.d. Ísland frá stórum sveiflum í gjaldmiðlinum.
Í fréttaskýringu í Kjarnanum fyrr í þessum mánuði var meðal annars fjallað um hvernig heimili og fyrirtæki gætu brugðist við losun hafta. Þar sagði að á endanum sé það alltaf pólitísk aðgerð stjórnmálamanna að rýmka eða afnema fjármagnshöft, enda eru þau bundin við lagatexta sem Alþingi samþykkti inn í lög.