Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum hæstaréttardómari, skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann segir að endurskoðandi sem starfaði hjá skattrannsóknarstjóra hafi verið rekinn fyrir að vera heiðarlegur. Endurskoðandinn, Þorsteinn Haraldsson, sendi orðsendingu til fjármálaráðherra vegna þess að hann taldi ríkisskattstjóra hafa misbeitt valdi sínu þegar hann ákvað að sleppa Stoðum, áður FL Group, við greiðslu 13 milljarða króna skattaskuldar sem embætti skattrannsóknarstjóra hafði talið að leggja ætti á félagið.
Þorsteinn höfðaði mál gegn íslenska ríkinu vegna uppsagnarinnar. Hæstiréttur dæmdi honum í vil í síðustu viku. Íslenska ríkinu var gert að greiða Þorsteini 6,5 milljónir króna auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Heildargreiðsla til Þorsteins er því líklega á bilinu níu til tíu milljónir króna.
Sagt upp 62 ára
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að Þorsteinn hafi veri sagt upp störfum hjá skattrannsóknarstjóra árið 2012 og uppsögnin hafi verið rökstudd með því að embættinu hefði verið gert að sæta niðurskurði samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Mánuði áður en uppsagnarfrestur Þorsteins var liðinn var hins vegar hætt við þann niðurskurð og í kjölfarið höfðaði Þorsteinn mál vegna ólgmætrar uppsagnar. Þorsteinn var 62 ára þegar honum var sagt upp störfum.
Í grein Jóns Steinars segir að uppsögnin hafi átt sér annan aðdraganga en niðurskurð. „Svo stóð á að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafði á árinu 2008 tekið til rannsóknar skattskil fyrirtækisins Stoðir hf. (áður FL Group hf.), meðal annars vegna ætlaðrar vangreiðslu tekjuskatts frá rekstrarárinu 2006. Hafði fyrirtækið í skattskilum sínum 2007 talið sér heimilt að fresta skattskilum af söluhagnaði hlutabréfaviðskipta að fjárhæð um 50 milljarðar króna. Lá fyrir að söluhagnaður þessi hefði leitt til um 13 milljarða króna skattgreiðslu félagsins, sem aldrei átti sér stað vegna síðari lagabreytinga. Taldi skattrannsóknarstjóri að leggja hefði átt viðbótarskattinn á enda væri það í samræmi við þá túlkun skattalaga sem ríkisskattstjóri hefði beitt í eldri úrskurði og aðrir gjaldendur því talið sér skylt að fara eftir. Svo fór að ríkisskattstjóri ákvað að fella málið niður og sleppa þessum gjaldanda þar með við greiðslu skattsins, sem eins og áður sagði nam um 13 milljörðum króna“.
Segir ástæðu uppsagnar ekki fara á milli mála
Jón Steinar segir að Þorsteinn endurskoðandi hafi verið starfsmaður skattrannsóknarstjóra á þeim tíma sem skattrannsóknin stóð yfir og að hann hafi meðal annars unnið við hana. „Hann fylgdist því með þeim ákvörðunum sem teknar voru á grundvelli rannsóknarinnar og taldi að hér hefði verið tekin ákvörðun sem væri andstæð lögum og fæli í sér grófa mismunun milli gjaldenda. Að auki yrði ríkissjóður af háum skatttekjum vegna afgreiðslu málsins[...]Eftir að hafa meðal annars leitað ráða hjá einum af nefndarmönnum í rannsóknarnefnd Alþingis um viðbrögð við því að verða sem starfsmaður vitni að slíkri misnotkun valds til skattálagningar, ákvað Þorsteinn að senda orðsendingu um málið til fjármálaráðherra sem fer með eftirlit með meðferð ríkisskattstjóra á valdi sínu. Ráðherra sá ekki ástæðu til að bregðast neitt við þessu. Hins vegar leiddi þetta til þess að Þorsteinn fékk frá yfirmönnum sínum tilkynningu um að til stæði að áminna hann fyrir brot í starfi vegna bréfsins, en slík áminning er samkvæmt lögum undanfari brottvikningar.“
Í kjölfar þess að Þorsteinn mótmælti yfirvonandi áminningu skriflega var honum tilkynnt að fallið hefði verið frá henni. Mánuði síðar var hann rekinn vegna niðurskurðar. Jón Steinar segir að ekki fari mikið á milli mála hver raunveruleg ástæða uppsagnarinnar var. „Núna liggur fyrir að yfirmenn Þorsteins Haraldssonar bökuðu ríkissjóði bótaskyldu með því að reka hann. Hann var í reynd rekinn fyrir að vera heiðarlegur. Ríkisskattstjórinn sem ákvað hins vegar með einu pennastriki að sleppa álagningu tekjuskatts sem um munaði situr áfram í embætti og rær í gráðið. Enginn veit ástæðuna fyrir því að maðurinn tók ákvörðun sína. Og enginn mun fá að vita hana, því á Íslandi komast menn einatt upp með misnotkun opinbers valds síns ef misnotkunin er nógu stórfelld og unnt reynist að skýra hana með orðum sem enginn skilur.“