Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, kjósi að snúa út úr yfirlýsingum hans. Það hafi bæði gerst eftir yfirlýsingu Sigmundar um loftslagsmál á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á dögunum, og einnig í fyrra.
„Þetta misskildi enginn, að ég tel, í New York þó að menn hafi séð tækifæri í því að gera sér upp misskilning hér heima, en það virðist reyndar vera orðinn fastur liður,“ sagði Sigmundur en Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði hann um yfirlýsingar hans um að Ísland hyggist draga úr útblástri gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent.
„Það var enginn slíkur misskilningur á þessum fundi Sameinuðu þjóðanna þar sem allir sem þar voru saman komnir til að ræða þessi SDG-markmið svokölluðu gerðu sér fyllilega grein fyrir því við hvað væri átt með þessu 40% markmiði, enda er það vel þekkt, og ég tel nú reyndar að háttvirtur þingmaður þekki það líka vel, og þeir sem hafa gert athugasemd við þetta, við hvað er átt. Það er átt við sameiginlegt markmið Íslands og annarra EES-landa um að draga úr losun þessara gróðurhúsalofttegunda um sem nemur 40% fyrir árið 2030,“ sagði Sigmundur.
Katrín spurði einnig um það hvernig ætti að ná þessum markmiðum.
Sigmundur sagði mikilvægt að hafa í huga að draga þurfi úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka græna orkunýtingu. Þar gætu Íslendingar komið sterkir inn á loftslagsráðstefnunni í París í desember. Eitt stærsta verkefnið væri að skipta út orkugjöfum í samgöngum.