Stjórn Isavia er staðráðin í að koma í veg fyrir að þátttakendur í samkeppninni um verslunarpláss í Flugsstöð Leifs Eiríkssonar geti kannað hvort annarlegar og ómálefnalegar ástæður hafi ráðið vali á fyrirtækjum sem fá verslunarpláss. Þetta segir Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.
Í mars 2014 efndi Isavia til svokallaðs forvals til samningaviðræðna vegna aðstöðu til verslunar- og veitingareksturs á Keflavíkurflugvelli, en samningstími núverandi rekstraraðila í Leifsstöð rann út um áramótin. Forvralið var auglýst á evrópska efnahagssvæðinu. Í kjölfar niðurstöðu forvalsins, þar sem Kaffitár hélt ekki plássi sínu í Leifsstöð, kærði Kaffitár niðurstöður til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál og óskaði eftir upplýsingum um einkunnablöð sem notuð voru við ákvörðun Isavia um hver fengi verslunarpláss.
„Ætla mætti að það stæði ekki í stjórn Isavia að upplýsa hvaða fyrirtæki tóku þátt í samkeppninni, en það er röng ályktun. Í fyrstu bar fyrirtækið fyrir sig trúnaði við þátttökufyrirtækin og meintan álitshnekki þeirra sem urðu undir í samkeppninni. Þá bar Isavia fyrir sig að líklega tækju fleiri fyrirtæki þátt í slíkri samkeppni ef leyndi hvíldi yfir samkeppnisferlinu. Úrskurðarnefndin gaf lítið fyrir þessi rök og krafðist þess að fá nafnalistann afhentan í trúnaði. Þá „upplýsti“ Isavia að gögnunum hefur verið eytt, nafnalistanum og öllum forvalsgögnum sem innhéldu m.a. upplýsingar um fyrirtækin, vöruframboð, verð- og markaðsstefnu!“ skrifar Aðalheiður.
Hún bendir á að úrskurðarnefnd hafi séð ástæðu til að minna Isavia á lög um opinbera skjalasöfnun. „Sú spurning verður áleitin hvort Isavia eyddi gögnunum áður en niðurstaða samkeppninnar lá fyrir eða hvort það var gert eftir að Kaffitár bað um gögnin 21. ágúst og opinber umræða um leynimakk hófst,“ segir í greininni. „Isavia neitaði ekki eingöngu Kaffitári um aðgang að stigagjöf annarra þátttakenda heldur neitaði hún einnig úrskurðarnefndinni um þessi gögn, þrátt fyrir tilmæli um að það yrðu aðeins afhent nefndinni í trúnaði,“ segir á öðrum stað.
„Ég gæti hagsmuna míns fyrirtækis og þess vegna óska ég eftir aðgangi að gögnum. Lesendum ætti þó að vera ljóst að hér er á ferðinni miklu stærra mál og varðar hagsmuni almennings,“ segir í lok greinarinnar.