Ívilnunarsamningur við Matorku var tekinn til sérstakrar umræðu á Alþingi í dag. Helgi Hjörvar var upphafsmaður umræðunnar og hann gagnrýndi Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra harðlega.
Helgi spurði hvernig Ragnheiður Elín leyfði sér að gera samning af þessu tagi, um veruleg fjárframlög úr ríkissjóði, án þess að það sé gert á grundvelli gildandi laga, en engin lög eru í gildi um ívilnanir til nýfjárfestinga hér á landi eftir að fyrri lög runnu úr gildi 2013. Samningurinn við Matorku er gerður með þeim fyrirvara að frumvarp Ragnheiðar Elínar um ívilnanir til nýfjárfestinga verði samþykkt. Frumvarpið hefur einnig verið gagnrýnt, meðal annars af allri efnahags- og viðskiptanefnd þingsins. Það er nú til umfjöllunar í atvinnuveganefnd.
„Hvers vegna fær fyrirtækið Matorka þessa sérmeðferð hjá ráðherranum? Augljóslega er það sérmeðferð vegna þess að þeir samningar sem gerðir hafa verið við tvo aðra aðila, Thorsil og Algalíf, eru lagðir fyrir þingið vegna þess að það eru engin lög í gildi,“ sagði Helgi. Ráðherrann tæki hins vegar sérstaka ákvörðun um að fara öðruvísi að með Matorku. „Hefði ekki þvert á móti vegna hinna margvíslegu tengsla fyrirtækisins við Sjálfstæðisflokkinn verið full ástæða til að fara sérstaklega varlega og leggja einmitt sérstaklega slíkan samning undir þingið en gera hann ekki bara með fyrirvara um að þingið samþykki einhver lög einhvern tímann í framtíðinni?“
Ragnheiður Elín svaraði því til að hún myndi einnig leggja samninginn við Matorku fyrir þingið ef ekki tækist að koma frumvarpi hennar um ívilnanir í gegnum þingið. Hún sagði jafnframt að nánast allt sem Helgi hefði sagt væri byggt á misskilningi og að andstæðingar hefðu reynt að gera málið mjög tortryggilegt að ósekju. „Þegar málið er skoðað af sanngirni þá sjá menn að þetta eru vindhögg. Ég fullyrði það að þessi samningur hefði fengið nákvæmlega sömu afgreiðslu hjá seinustu þremur iðnaðar-og viðskiptaráðherrum, þeim Katrínu Júlíusdóttur, Oddnýju Harðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni,“ sagði hún.
„Í umræddu máli, Matorku, hefur verið fylgt nákvæmlega sömu leikreglum og hafa verið í gildi síðastliðin fimm ár, nákvæmlega. Ég hef talið afar mikilvægt að gæta samræmis og hlutleysis við gerð þessara fjárfestingarsamninga og frá ársbyrjun 2014 hef ég fyrir hönd ríkisins undirritað fimm slíka, nú síðast við Matorku,“ sagði Ragnheiður Elín. Hún sagði jafnframt við lok umræðunnar að það ætti að ræða það almennt hvort standa ætti í ívilnunum til fyrirtækja almennt og þá með hvaða hætti.