Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir að Samtök atvinnulífsins (SA) hafi lýst því yfir við fyrirtæki innan SA að verkalýðshreyfingin hafi hafnað tilboðinu áður en Starfsgreinasambandið fékk að „sjá nokkurt tilboð“. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Drífu. „Áður höfðu önnur landssambönd og félög innan verkalýðshreyfingarinnar greinilega fengið slíkt tilboð og hafnað því samstundis,“ segir í tilkynningunni.
Almennar launahækkanir sem SA bauð í tilboðinu er 14% á þremur árum, að meðaltali 30.000 króna hækkun taxta á þremur árum. Aðrar launahækkanir í tilboðinu voru tilfærslur sem verkafólk greiddi sjálft með lækkun yfirvinnuprósentu og lengingu dagvinnurammans, segir Drífa. Við erum ekki til viðræðu um slíkt nema það sé tryggt að hægt sé að lifa á dagsvinnulaunum, svo var ekki í tilboðinu. „Lágmarkstekjutryggingin sem í dag er 214.000 krónur eftir 4 mánaða starf var hækkuð í tilboðinu og endaði í 280.000 krónum eftir tvö ár eftir 6 mánaða starf hjá sama fyrirtæki - inni í þessari tryggingu er hverskonar bónus-, álags- og aukagreiðslur,“ segir í tilkynningu Drífu.
Drífa segir enn fremur að samninganefnd Starfsgreinasambandsins hefði verið „þess fullviss“ eftir lestur tilboðsins að samningur á þessum grunni yrði felldur í atkvæðagreiðslu og til lítils væri unnið að fara með hann fyrir samninganefndir einstakra félaga.
„Hvað varðar yfirlýsingar SA um að tilboðið sé hærra en allar samningsniðurstöður í kjarasamningum síðustu ár þá má rifja upp samning sem gerður var við flugmenn og flugstjóra og undirritaður í desember 2014. Sá samningur gaf starfsfólkinu hundruðir þúsunda í launahækkun næstu tvö ár,“ segir Drífa í tilkynningu, en SA heldur því fram tilboð samtakanna til Starfsgreinasambandsins, hafi falið í sér 23,5 prósent hækkun lægstu launa.