Það hefði átt að vera formsatriði að jarða dauðar aðildarviðræður á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar en þess í stað lagði hún upp í „óskiljanlegt sjónarspil“. Bréfið sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sendi til Evrópusambandsins og átti að enda veru Íslands sem umsóknarríkis að sambandinu var „með bænastefi“ og var „undarlegt afbrigði“. Betur hefði farið á því „að láta aðra semja bréfið en Íslandsdeild ESB í utanríkisráðuneytinu, sem stjórnað er af íslenska stækkunarstjóranum, þá var þó loks búið að koma frá sér þessu snifsi.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sem er að öllum líkindum ritað af Davíð Oddssyni, fyrrum forsætisráðherra og Seðlabankastjóra og núverandi ritstjóra blaðsins.
Bréfið er að þessu sinni að mestu helgað tilrauninni til að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og upprifjunum á ákvörðunartökum í hruninu.
Þar er því einnig haldið fram að ef núverandi stjórnendur Seðlabankans hefðu haldið um stjórnartaumanna í bankanum í hruninu, en ekki bankastjórn undir forystu Davíðs Oddssonar, þá hefði Ísland „vafalaust farið leið Grikklands og Spánar“ í kjölfar hrunsins.
Formsatriði að jarða dauða umsókn
Höfundur bréfsins segir að það hefði átt að vera formsatriði að jarða dauðar aðildarviðræður strax á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og að stjórnarandstaðan hefði sjálf ekki átt von á neinu öðru. „En þá hófst óskiljanlegt sjónarspil. Aðili úti í bæ var fenginn til að fimbulfamba um það, hvernig staðan væri í Evrópu, eins og ríkisstjórnin á Íslandi væri hin eina sem vissi ekkert um það. Hinir rassskelltu gömlu stjórnarherrar voru ekki þekktastir þingmanna fyrir að trúa á framahaldslíf og göptu þegar þeir áttuðu sig á að nýja stjórnin virtist lögst í spíritisma.
Loks var þó flutt þingsályktunartillaga um að kasta rekunum, en meðferð hennar varð ekki lokið, af því að stjórnarandstaðan varð sér til skammar en samt var ákveðið að hún ætti að stjórna þinghaldinu. Framhaldið þekkja menn því miður.
Svo var allt í einu ákveðið að senda bréf með bænastefi til Brussel um að embættismenn þar yrðu svo liprir að sýna góðan skilning á því að Ísland vildi ekki lengur vera umsóknarríki.[...] Og þótt farið hefði betur á því, að láta aðra semja bréfið en Íslandsdeild ESB í utanríkisráðuneytinu, sem stjórnað er af íslenska stækkunarstjóranum, þá var þó loks búið að koma frá sér þessu snifsi."
Höfundurinn gerir túlkun á innihaldi bréfsins einnig að umtalsefni og segir ýmsa hafa talað um það af fyrra bragði að "hvergi í bréfi utanríkisráðherrans, sem ríkisstjórnin hefði samþykkt, væri talað um slit eða riftun viðræðna! Ef maður hefur drukknað, verið skotinn og hengdur í framhaldinu er þá galli á frásögninni, ef ekki er tekið fram hvort hann dragi enn andann eða ekki?[...]Hvaða endemis aulagangur felst í tali af þessu tagi? Hvernig geta þingmenn leyft sér slíkt tal?
Er hægt að undra sig á því að þingmenn Pírata leggist í athugun á því hver staðan sé í tölvuleikjunum, þegar þingmenn, sem vilja að jafnaði láta taka sig alvarlega, tala svona? Eru þeir viljandi að ýta undir ruglanda og bjálfahátt? Ef svo er, hvað gengur þeim til? Hefur þjóðin gert þessum þingmönnum eitthvað?“
Segir ákvarðanir sínar í hruninu hafa bjargað Íslandi
Höfundur bréfsins, sem að öllum líkindum er Davíð Oddsson, fjallar einnig um ákvarðanir og athafnir Davíðs Oddssonar í hruninu. Þar segir að nú hafi komið á daginn, og sé almennt viðurkennt, ekki síst í útlöndum, að íslensk peningamálayfirvöld hafi brugðist hárrétt við í þeim aðstæðum sem blöstu við þeim.
Ef núverandi stjórnendur Seðlabankans hefðu verið við stjórnvölinn hefði Ísland líkast til farið sömu leið og Grikkland og Spánn. Allir fjölmiðlar landsins hafi hins vegar brugðist á þessum tíma. „Þau [peningamálayfirvöld í hruninu] á ögurstund að öllu varðaði að þjóðinni yrði ekki gert að axla ábyrgð annarra á því sem gerst hafði. Það tókst að leggja þessa línu þótt valdamenn og valdablokkir Evrópu hefðu aðra stefnu og sóttu hana af harðfylgi. Í Evrópu var ákveðið í hásölum valdsins að hagsmunir lánastofnana skyldu ganga fyrir öllu öðru. Þar var illum launað. Stjórnendur þeirra höfðu breytt sér í spákaupmenn og átt á tryllingslegum uppgangstíma óeðlilega samfylgd með peningalegum áhættufíklum.
Velferð þessara var nú sett í forgang og saklaus almenningur landa evrunnar látinn tryggja skaðleysi skaðvaldanna. Íslendingar voru beittir miklum þrýstingi um að fara sömu leið. Sú saga hefur ekki enn öll verið sögð.
Það var erfiðara að standast þann þrýsting og hótanir sem honum fylgdu, vegna þess að innlendir aðilar, þar með taldir allir fjölmiðar landsins, einnig Morgunblaðið, lögðust á sveif fjárglæfranna. Sama liðið fór síðar hamförum í Icesave-málinu, sem ýmsir létu undan þá, og háir þeim síðan. Ef núverandi forysta hefði verið í Seðlabankanum haustið 2008 myndi Ísland vafalaust hafa farið leið Grikklands og Spánar.“
Samfylkingin flokkur útrásarvíkinga
Höfundurinn fjallar einnig um Sjálfstæðisflokkinn og hvernig hann brást við í kjölfar hrunsins. Hann segir Samfylkinguna hafa verið þann flokk sem mest ýtti undir hömluleysi útrásarvíkinga sem hafi með samræmdum áróðri náð að fela það. „Mótmæli voru skipulögð á strategískum stöðum og athygli markvisst beint frá þeim sem spilað höfðu stærsta rullu í ógöngunum. Að lokum var svo komið að engu mátti muna að hið fámenna hugrakka lögreglulið landsins fengi ekki tryggt að skríll næði ekki stjórnkerfinu á sitt vald. [...]Sjálfstæðisflokkurinn var sem lamaður í þinginu, ef frá eru taldir reyndir þingmenn á borð við Björn Bjarnason og Sturlu Böðvarsson. Kosningabaráttan var fyrirsjáanleg.
Sjálfstæðisflokkurinn tók þann kost að ráði almannatengla að vera með „afsakið-fyrirgefið þið“-upplit alla kosningabaráttuna og sogaði þar með til sín alla sök á áfallinu sem varð, á meðan Samfylkingin, flokkur útrásarvíkinganna, komst upp með að láta eins og hún hefði komið til landsins daginn áður, eftir langa dvöl á suðurskautinu.“