"Ekki gat mig órað fyrir því að skipan mín sem varamanns í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar myndi valda slíku uppnámi á vinstrivæng stjórnmálanna, að kalla þyrfti til, bæði NATO og varnarliðið, í gervi ráðherra Framsóknarflokksins og að auki samanlagða heri "fjölmiðlabarnanna", með öll hugsanleg árásarvopn á lofti, til þess eins að ganga fullkomlega frá ódáminum Gústafi Níelssyni, sem hafði vogað sér að tjá skoðanir, sem hinni pólitísku rétthugsun í landinu er vanþóknanleg".
Svona hefst grein sem Gústaf Níelsson, sem í janúar var skipaður varamaður Framsóknarflokks og flugvallarnina í mannréttindaráði Reykjavíkur, skrifar í Morgunblaðið í dag. Í greininni gerir hann upp skipan sína og viðbrögð við henni en skipan Gústafs var dregin til baka daginn eftir að hún átti sér stað. Ástæðan voru mjög umdeild skoðannaskrif hans um múslima og samkynhneigða.
Þrír ráðherrar tóku Sveinbjörgu á hraðnámskeið
Í greininni rekur Gústaf að það voru einmitt skrifin um múslima sem hafi dregið oddvita Framsóknar og flugvallarvina, Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, að honum. Hún hafi leitað til hans 11. desember 2014 og falast eftir því að hann tæki umrætt varamannssæti. "Tók ég því ekki illa og aðspurð sagðist hún hafa fylgst með skrifum mínum um þjóðmál og þótt þau málefnaleg og tiltók sérstaklega ritdeilu mína á síðum Morgunblaðsins við leiðtoga Félags múslima á Íslandi, en ég hafði ritað félaginu opið bréf sem birtist í blaðinu 18. nóvember sl."
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir.
Gústaf segir að hann og Sveinbjörg Birna hafi verið sammála um að skipanin gæti framkallað einhver viðbrögð en að enginn hafi búist við því sem hann kallar "fullkomnu taugaáfalli vinstrimanna allra flokka". Fannst honum pólitískt mikilvægi sitt gróflega ofmetið en greinilegt hafi verið að skipanin hafi valdið mörgum framsóknarmanninum andvökunótt. "Strax í bítið næsta dag var oddviti Framsóknarflokksins tekinn á hraðnámskeið í pólitískri rétthugsun hjá ekki færri en þremur ráðherrum flokksins, þeirra á meðal sjálfum forsætisráðherranum, og gert ljóst að maður af þessu sauðahúsi, með skoðanir sem væru bæði geislavirkar og holdsveikar, gæti ekki undir nokkrum kringumstæðum gegnt svona mikilvægu trúnaðarstarfi.
"Strax í bítið næsta dag var oddviti Framsóknarflokksins tekinn á hraðnámskeið í pólitískri rétthugsun hjá ekki færri en þremur ráðherrum flokksins, þeirra á meðal sjálfum forsætisráðherranum, og gert ljóst að maður af þessu sauðahúsi, með skoðanir sem væru bæði geislavirkar og holdsveikar, gæti ekki undir nokkrum kringumstæðum gegnt svona mikilvægu trúnaðarstarfi.
Enginn þeirra hafði þó haft fyrir því að kynna sér skrif þessa manns eða orðræðu og rök. Sleggjudómar ráðherranna voru svo skelfilegir að ég leyfi mér að efast um dómgreind þeirra, auk þess sem ég undraðist að ráðherrar væru að gera sig breiða, með þessum hætti, gagnvart sigurvegara í Reykjavíkurkjördæmi, enda blasir við að háttsemi af þessu tagi kálar öllum trúverðugleika borgarfulltrúa flokksins í kjördæminu, sem hafa þó ekki verið fleiri í marga áratugi. Flokksforustan skaut sig eftirminnilega í fótinn í málinu og er ekki búin að bíta úr nálinni með það. Undir svona þrýstingi er ekki óeðlilegt að taugar bestu kvenna bresti, þótt kjarnakonur séu, en sýnir auðvitað fyrirlitningu flokksforustunnar gagnvart pólitískum brautryðjendum flokksins í Reykjavík".
Fjölmiðlabörnin og Snorri í Betel
Gústaf dregur að endingu þá ályktun af uppákomunni að pólitíska ástandið sé ekki burðugt í Framsóknarflokknum og spáir því að flokkurinn fái engan borgarfulltrúa í næstu sveitarstjórnarkosningum.
Hann segist ekki hafa séð aðra eins leikni í sjálfsgagnrýni og átti sér stað þegar að skipan hans var dregin til baka síðan að Kommúnistaflokkur Íslands var og hét. "Til þess að gera langa sögu stutta má segja að næstu tvær vikurnar hafi fjölmiðlarnir hamast við það að tala um mig, frekar en við mig. Og einna fyndnast þótti fjölmiðlabörnunum að ég bæri millinafnið Adolf og byggi við Kristnibraut. Enginn hafði áhuga á skoðunum eða rökum, aðeins því að taka þátt í útskúfun sjónarmiða, bannfæringu skoðana og brennimerkingu mannsins með vondu skoðanirnar. Tjáningarfrelsið tapaði stuttri orrustu, en stríðið er ekki til lykta leitt. [...]En hvaða lærdóm má draga af þessari sérkennilegu uppákomu? Þann mikilvægasta tel ég vera að fjölmiðlar og stjórnmálamenn hika ekki við að reyna að þagga niður í röddum er tjá skoðanir sem eru ekki í samræmi við ríkjandi sjónarmið tíðarandans. Aðferðirnar geta verið af margvíslegu tagi.
Og einna fyndnast þótti fjölmiðlabörnunum að ég bæri millinafnið Adolf og byggi við Kristnibraut. Enginn hafði áhuga á skoðunum eða rökum, aðeins því að taka þátt í útskúfun sjónarmiða, bannfæringu skoðana og brennimerkingu mannsins með vondu skoðanirnar
Sú áhrifaríkasta er að bola mönnum úr starfi sínu. Það tókst með Snorra Óskarsson, kennara á Akureyri. Enginn skólastjóri myndi þora að ráða hann til starfa af ótta við pólitíska rétthugsunarliðið. Hann má nú una því að þiggja atvinnuleysisbætur. Vonandi mun hann sigra í dómsmáli sem nú er rekið vegna rangindanna sem hann var beittur og ég þakka almættinu fyrir að eiga lífsbjörgina ekki undir öðrum en sjálfum mér. Þessi atburðarás mun væntanlega vekja áhuga lögfræðinga og annarra fræðimanna sem láta sig varða jafnsjálfsögð mannréttindi og tjáningar- og skoðanafrelsið," segir Gústaf að lokum.
Umræddur Snorri Óskarsson er oftast kenndur við Betel. Árið 2012 var hann áminntur af Akureyrarbæ fyrir bloggskrif um samkynhneigð þar sem hann skrifaði að samkynhneigð teldist vera synd og að laun syndarinnar væru dauði. Akureyrarbær túlkaði þau orð á þann veg að refsa ætti samkynhneigðum með dauða, en Snorri vill meina að þarna hafi hann fjallað almennt um synd en ekki sérstaklega um samkynhneigð. Í kjölfar skrifanna var Snorri áminntur og sendur í sex mánaða leyfi. Síðar var honum sagt upp störfum.